Áróðursherferðin sem er farin fyrir Reykjavíkurflugvelli undir því fororði að mannslífum sé teflt í hættu er á mörkum hins smekklega.
Reykjavíkurflugvöllur hefur bæði kosti og galla – sem má vega og meta. Ef sjúkraflug lenti ekki í Vatnsmýri, þyrftu menn að finna aðra leið til að láta það ganga upp. Í samfélagi sem vill halda uppi almennilegri heilbrigðisþjónustu yrði það auðvitað gert.
Í bráðatilvikum eru þyrlur, mannaðar læknum, náttúrlega miklu betri kostur en flugvélar sem hafa takmarkaða kosti bæði til flugtaks og lendingar.
Ragnar Gunnarsson, læknir við Háskólasjúkrahúsið í Osló, skrifar í athugasemd við grein hér á vefnum og fjallar um hvernig þessum málum er háttað í Noregi:
„Það er engin læknisfræðilega viðurkennd staðreynd að sjúkrahús eigi að vera á flugvallarenda og alþjóðlega séð er það sjaldgæf undantekning.
Bendi td. á nágrannaríkið Noreg. Þeir hafa markvisst sameinað innanlandsflug og utanlandsflug til að spara fé og samþjappa viðbragðsáætlun við flugslysum, brunavörnum, öryggisgæslu og eftirlit. Flugfélögin vilja hafa það svo til að einfalda ferðir frá innanlandsflugi í utanlandsflug og öfugt enda mikið óhagræði að dröslast af flugvellinum í rútu til Reykjavíkur þegar fólk ætlar beint til Akureyrar, Ísafjarðar eða annað.
Í Noregi þá eru um 50-60 km frá sjúkrahúsunum í Ósló (Ullevål, Rikshospitalet og Radiumhospitalet) til aðalflugvallarins við Gardemoen (Oslo Flyplass). Næst stærsta borgin i Noregi, Bergen það eru tæpir 20 km frá flugvellinum (Flesland) að Haukeland universitetssykehus. Þriðja stærsta borgin Þrándheimur. Þar eru um 35 km frá flugvellinum (Værnes) að St. Olavs universitetssykehus.
Það eru um 48km frá Keflavíkurvelli inn á Landspítalann og aðeins styttra á Landspítalann í Fosvogi (gamla Borgarspítalann). Það er hraðlest frá Gardemoen til Óslo en hef aldrei heyrt að það sé notað við sjúkraflutninga. Það tekur vart meira en 25 mín að keyra með sírenum með sjúkrabíl frá Keflavík og enn styttri tíma með þyrlu.
Ef við ímyndum okkur bílslys á afskektum vegi. Héraðslækninn er kallaður út, keyrir að slysinu ásamt sjúkrabíl, þarf að fá út sjúklinginn/ana og flytja út á flugvöllinn sem getur verið langt frá slysstað. Ryðja flugvöllinn (ef snjór), kalla út sjúkraflug sem þarf að fljúga að flugvellinum og fljúga til Reykjavíkur og lenda. Miðað við það að senda fullbúna þyrlu með vönum bráðalækni/svæfingarlækni og æfðri áhöfn sem getur lent á slysstað og síðan beint á Landspítalanum (eða FSA). Hér í Noregi eru menn með stand-by þyrlur með fullri áhöfn og sameina og fækka flugvöllum í sparnaðarskyni meðan á Íslandi vilja menn hafa marga flugvelli og spara í þyrlurekstri. Virkar svolítið undarlegt í mínum eyrum.“