Það er mikill heiður fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands að vera boðin að spila á BBC Proms – þetta er sannarlega ein helsta tónlistarhátíð í heimi.
Ég hef nokkrum sinnum farið á tónleika á Proms, flytjendurnir sem ég hef séð eru ekki af verri endanum: Berlínarfílharmónían, Bostonsinfónían, Simon Rattle, Bernard Haitink, Lang Lang.
Sinfóníuhljómsveitin þarf að vanda vel til verka þegar hún spilar í þessum gæðaflokki – tónleikarnir fara fram í Royal Albert Hall, einum glæsilegasta tónleikasal í heimi. Og áheyrendurnir er fólk sem kemur víða að og veit margt um tónlist.
Hljómsveitin hefur átt í dálítilli krísu eftir fyrstu glöðu dagana í Hörpu. Það er annað að spila í Háskólabíói en í 1700 manna sal þar sem heyrist hver nóta. Áhorfendum hefur fjölgað, áhorfendahópurinn er orðinn yngri og fjölbreyttari. Það er mjög gott. En það hefur verið ljóst nokkra hríð að hljómsveitin og aðalstjórnandi hennar, Ilan Volkov, eiga ekki samleið. Hljómsveitinni og stjórnandanum lyndir einfaldlega ekki.
Ýmsir gestastjórnendur sem koma hafa náð meiru út úr sveitinni en Volkov. Styrkur hans liggur helst í nútímatónlist, en miklu síður í rómantík eða því sem hefur verið nefnt Vínarklassík. Þegar hann stjórnar er eins og hann kæfi spilagleði hljómsveitarinnar.
Volkov er á leiðinni burt, þetta er síðasta árið hans. En það kemur á óvart hversu mörgum tónleikum hann stjórnar í vetur.