Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar er þung högg fyrir Alþingi Íslendinga.
Aðeins 14 prósent þjóðarinnar bera traust til Alþingis.
Og það er ekki aðeins vantraust – fólk hefur beinlinis skömm á vinnubrögðunum í þinginu.
Það er hægt að vísa í slæma umræðuhefð, en þingmenn geta sjálfum sér um kennt.
Þeir þurfa, hver og einn, að skoða hug sinn áður en þeir taka þátt í málþófi, heimskulegum upphlaupum eða múgæsingu eins og hefur einkennt þingið.
Varla munu þau heldur auka virðingu þingsins flokksdýrin sem fylgja línunni í einu og öllu, þannig að aldrei örlar á sjálfstæðri hugsun eða skoðun.
Á Íslandi er það svo að ráðherrar sitja nær undantekningarlaust á Alþingi. Þegar menn taka við sem ráðherrar fá þeir aðeins betri sæti í þinginu en óbreyttir og snúa í aðra átt.
En þeir eru samt sem áður þingmenn. Það er því þingmanna sjálfra að kveða niður ráðherraræðið sem hefur svo lengi einkennt íslensk stjórnmál – og virðist ekki ætla að verða neitt lát á.