Benedikt Jóhannesson vitnar í Skugga-Svein, leikrit Matthíasar Jochumssonar, í pistli á vefsvæðinu Heimur.
Um að gera að lesa pistil Benedikts í heild, en tilvitnuni í Skugga-Svein er svohljóðandi:
Ögmundur: Aumt er að eiga engan vænni kost en fylgja þér og Katli. Ill er mín æfi.
Skugga-Sveinn: Og verri skal hún verða, en verst að lokum! Því ekki skuluð þið ætla, að ég batni með ellinni; vitið þið ekki, að það er gamalt einkenni allra afarmenna,að þeir ergjast sem þeir eldast? En heyr nú, Mundi: Nú er mér leitt af hlaupum og bræði, og því legg ég á þig, að gálginn og fjandinn gleypi þig þann dag, sem þú svíkur mig eða yfirgefur. En meðan þú fylgir mér og heldur kjafti, máttu hjara!
Ögmundur: Sparaðu hótanir þínar, Sveinn, farið er þér nú flest að förla nema skapið.
Skugga-Sveinn: Ég þoli engar umbreytingar fram. bráðar breytingar eru ellinnar ólyfjan. Ég þekki mig ekki framar. Í æsku heyrði ég talað um hlýjan hug og hjartagæði, en nú fyrir löngu þekki ég ekkert nema harðúð og kaldan klaka. – Burt, burt allur kveifarskapur! Aldrei skal guggna, aldrei vægja sá sem enginn vægir. Skapið á ég þó óbreytt enn og röddina rámu.
Vini hef ég aldrei átt;
enginn bauð mér frið né sátt;
auðarslóð mér unni ei nein;
allir hræddust Skugga-Svein.
Við Ketil skræk: Vertu mér fylgispakur og haltu kjafti!
Ketill: Ég held kjafti og verð þér fylgispakur.
Skugga-Sveinn: Heyrðu, segðu mér eitt, hefur þú lært boðorðin?
Ketill: Nei og ég þarf ekki breyta eftir því sem ég ekki veit.
Skugga-Sveinn: Skynsamlegt svar, Ketill. Hvað eru boðorðin mörg?
Ketill: Þau eru mörg. Mig minnir ellefu.
Skugga-Sveinn: Og það ellefta er þetta: Lærðu að launa illt með illu!
Ketill: Þetta boðorð líkar mér vel. Ég er þér trúr.
Skugga-Sveinn: Allir drottinssvikarar verða hengdir, Ketill. Engum að trúa. Illt er illur að vera. En burt allur kveifarskapur! Skugga-Sveinn á ekkert að óttast, en öllum að storka. Það eru bleyðumar í byggðinni, sem allt vex í augum. Þeir eru löngu dauðir úr öllum æðum og orðnir ættlerar frækinna feðra. Dáðlausir örkvisar eru þeir allir, og heilar sveitir hræðast nú einn örvasa karl, enda hefir mörg lyddan kennt á kögglum þessum.