Það er furðulegt að heyra því haldið fram að aukin netnotkun valdi því að minni þörf sé á öflugum fjölmiðlum, eins og ríkisfjölmiðlunum sem tíðkast í Evrópu.
Þessu er eiginlega þveröfugt farið. Við sjáum að fjölmiðlamönnum, sem hafa reynslu og þekkingu, fækkar. Það er ódýrara að láta ungt og óreynt fólk vinna störfin. Það er líka meðfærilegra þegar eigendavaldið á í hlut. Internetið er fullt af skoðunum og upphrópunum – það getur verið erfitt að vinsa alvöru upplýsingar úr.
Ég set hér inn bút úr viðtali sem birtist við mig í DV um daginn:
„Egill er virkur bloggari og hefur verið frá árinu 2000 þegar hann byrjaði að blogga og hefur haldið því áfram nánast upp á dag. Hinir hefðbundnu fjölmiðlar, sér í lagi dagblöðin, eiga undir högg að sækja út um allan heim. Ástæðan er auðvitað internetið, þessi upplýsingabylting. Egill hefur fylgst með breytingunum og í raun verið í auga stormsins.
“Við erum að horfa upp á dauða hefðbundinna dagblaða og mikla breytingu á allri hefðbundinni blaðamennsku. Í dag horfa menn á mína þætti á netinu til jafns og í sjónvarpi. Þetta er allt annar veruleiki. Efnið öðlast annað líf á netinu. Það hafa þúsundir horft á brot úr Silfrinu sem voru klippt saman og sett á Youtube. Það er auðvelt að heillast af þessum heimi en mér finnst hann að sama skapi svolítið skelfilegur.”
Nauðsynlegt sé að hafa fjölmiðla með bolmagn til að skrifa fréttir, borga alvöru fólki fyrir rannsóknarvinnu og greiningar. “Ég dýrka fjölmiðla á borð við New York Times og Guardian. Þetta eru miðlar sem byggja á því að borga fólki sem hefur menntun og þekkingu laun fyrir sína vinnu. Fjölmiðill sem getur ekki borgað laun er einskis virði. Það verða að vera til miðlar sem geta borgað fyrir sérfræðiþekkingu og þeir eru ekki á netinu. Þess vegna finnst mér stóru dagblöðin og ríkisfjölmiðlarnir aldrei hafa verið mikilvægari en nú. Glundroðinn á netinu er svo mikill og auðvelt fyrir öskurapana að afvegaleiða umræðuna. Brynjar Níelsson varpar fram einhverri rökleysu og hálf þjóðin er farin í öskurkeppni af þeim sökum.”