Mér finnst allt kónga- og drottningastand verulega ógeðfellt. Svoleiðis er það bara. Ef ég byggi í landi þar sem væri kóngur, þá væri ég ákafur lýðveldissinni.
Að það séu meðfædd fríðindi í ákveðnum ættum að vera þjóðhöfðingjar og búa í höllum með þjóna á hverjum fingri – og það líka í lýðræðisríkjum. Það er ekki bara tímaskekkja, heldur alveg absúrd. Og þetta tíðkast meira að segja á hinum frjálsu Norðurlöndum.
Yfirleitt snýst þetta heldur ekki um einn kóng- eða drottningu, heldur heilu ættirnar sem halda þessum fríðindum mann fram af manni.
Eina sem þessar ættir þurfa að standa skil á er erfingi ríkisins – með reglulegu millibili. Það er í raun eina starfið, fyrir utan að vera í slúðurpressunni, fáir hafa áhuga á að heyra skoðanir þessa fólks. Þegar Karl Bretaprins opnar munninn lokast alls staðar eyru.
Núorðið hefur frjálslyndið náð slíkum hæðum að það þurfa ekki bara að vera sveinbörn – meybörn koma líka til greina.
Í þessari grein er sagt frá millistéttarstúlkunni sem var fengin til undaneldis fyrir prins sem verður kannski einhvern tíma konungur Bretlands – ef amma hans verður ekki eilíf.
Þetta er allt mikið ævintýri.
Og fyrir ættina er þetta náttúrlega mikið happ, því þetta þýðir að hún mun halda öllum forrétindunum áfram, barnið er það sem heitir á ensku meal ticket.
Allt dugir þetta mjög vel, því í fréttum nýskeð var sagt frá ríflegri hækkun á greiðslum til langömmu barnsins, sem er drottning, á meðan allt er í niðurskurði í Bretlandi, atvinnuleysi grasserar, skólagjöld hækka og heilbrigðiskerfið er í mesta vanda.
En sjálfsagt verður mikið um dýrðir í næstu viku þegar barnið fæðist og gott að vita til þess að það þarf ekki að óttast skort, fremur en aðrir í ætt þess.