Maður getur ekki varist þeirri tilhugsun að hin nýja ríkisstjórn sé í vandræðum á fyrstu mánuðum sínum.
Framlagningu fjárlaga og þar með þingsetningu hefur verið frestað um þrjár vikur.
Það er búið að setja saman sérstaka nefnd til að finna hvar megi skera niður í ríkisrekstrinum, ekkert er undanþegið, segir forsætisráðherra.
Nýr heilbrigðisráðherra skrifar grein og segir að vanti 8,6 milljarða í heilbrigðiskerfið og að skera þurfi niður annars staðar til að mæta því.
Þetta er í nokkurri andstöðu við það sem sagt var fyrir kosningar, þegar var lofað betri tíð með blóm í haga, skattalækkunum sem myndu örva hagkerfið og stækkun kökunnar með framkvæmdum.
Því í kosningabaráttunni var satt að segja lítið talað um niðurskurð og reyndar er það svo að ef litið er til niðurskurðar hefur engin ríkisstjórn verið stórtækari en stjórn Jóhönnu á fyrstu árum sínum.