Það er eitthvað málum blandið að Jón Gnarr borgarstjóri hafi gift minn ágæta félaga af Ríkisútvarpinu, Hans Steinar Bjarnason, eins og segir frá í Mogganum.
Borgarstjórinn í Reykjavík getur víst ekki gift fólk, enda var þetta til gamans gert.
Ég ætla að geta þess að við Sigurveig vorum gift af borgarstjóra, eða líklega er nær að kalla það bæjarstjóra.
Það var hér á eyjunni Folegandros, bæjarstjórinn heitir Lefteris og hann reykti allan tímann meðan athöfnin fór fram.
Hún var hér á klettabrún með vítt útsýni yfir hafið. Lefteris fór ekkert í sparifötin, hann var klæddur sínum gula pólóbol – eða var hann bleikur?
En allt var þetta lögformlega gert eftir talsvert vafstur með pappíra og tilkynningin um giftinguna barst til Íslands með lögformlegum leiðum. Frumgögnin voru auðvitað á grísku en voru þýdd yfir á íslensku.
Þetta var fyrir fimm árum, nánar tiltekið 2. júlí 2008. Þá gerði Halldór Baldursson þessa teikningu.