Það er rétt sem komið er fram að ég er hættur með Silfur Egils.
Þættirnir hafa verið í sjónvarpi síðan 1999, fyrst á Skjá einum, svo á Stöð 2 og nú síðustu sex árin á Rúv.
Mér þykir þetta orðið gott. Ég árétta að það er að mínu frumkvæði að þættirnir renna nú sitt skeið.
En það er langt í frá að ég sé að hætta í sjónvarpi eða fjölmiðlum.
Kiljan verður áfram á dagskrá vikulega frá því í september.
Ég ferðaðist um Kanada og Bandaríkin í vor ásamt Ragnheiði Thorsteinsson og Jóni Víði Haukssyni; við komum heim með mikið efni sem verður uppistaðan í stórri þáttaröð um Íslendinga í vesturheimi og afkomendur þeirra. Í þáttunum verður lögð sérstök áhersla á söguna og bókmenntirnar – ekki síst á sögurnar sem fólkið segir sjálft. Okkar bíður mikið verk að koma þessu efni saman.
Svo er rætt um aðra þáttagerð á sviði menningar og ferðalaga – jú, og þjóðmála. En það kemur í ljós síðar.
Og svo á ég ekki von á öðru en að ég haldi áfram að blogga hér á Eyjunni. Þetta er skemmtilegasti vettvangur þjóðfélagsumræðu á Íslandi. Ég hef bloggað síðan snemma árs 2000 og þetta er orðið nánast eins og að draga andann – aðferð til að hugsa upphátt.