Skelfilegar eru hugmyndir Kínastjórnar um að flytja 250 milljónir manna í nýreistar borgir og bæi.
Þetta er gert til að auka hagvöxt, að því sagt er. Frá þessu er greint í New York Times.
Svona aðgerðir hafa stundum verið nefndar þjóðfélagsverkfræði – social engineering á ensku.
Í því sambandi má nefna samyrkjubúavæðingu Sovétríkjanna í upphafi fjórða áratugs síðustu aldar, og nokkur stórátök kommúnistastjórnarinnar í Kína, eins og samyrkjubúavæðinguna þar og Stóra stökkið sem var tilraun Maós til að iðnvæða Kína á stuttum tíma.
Reyndar má segja að þessar hugmyndir kínverskra stjórnvalda minni meira en lítið á Stóra stökkið. Það olli skelfilegum hörmungum.
Að baki liggur það viðhorf að tilgangurinn helgi meðalið, að réttlætanlegt sé að valda þjáningum og dauða í stórum stíl til að ná fram stjórnmálalegum eða efnahagslegum markmiðum.
Eiginlega finnst manni hrollvekjandi að ríkisstjórn sem stendur fyrir svonalöguðu eigi nú að verða sérstakur vinur Íslendinga.