Ríkisstjórnin býr við þann lúxus að það er engin stjórnarandstaða.
Fyrri stjórnarflokkar eru í naflaskoðun. Samfylkingin leitar í örvæntingu að skýringum á slæmu gengi, innan Vinstri grænna beinist reiðin ekki síst að Ögmundi Jónassyni sem lengi spilaði eins og hann væri í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn sem hann sat sjálfur í.
Björt framtíð virðist fyrst og fremst vera hálf letileg.
Helsta andstaðan kemur frá náttúruverndarsinnum sem óttast stór áform í virkjanamálum.
Svona verður þetta um nokkurt skeið. Það verður talsvert langt í að Samfylkingin og VG nái vopnum sínum í stjórnarandstöðu.
En yfir stjórninni vofir krafan um skuldaleiðréttingar. Hún gleymist ekki og það er lítil þolinmæði gagnvart undanbrögðum í því máli.
Ég gerði þetta að umfjöllunarefni í pistli í gær – og ég sé að Styrmir Gunnarsson er á sömu nótum á vef Evrópuvaktarinnar.
Styrmir skrifar:
„Það skiptir gríðarlegu máli fyrir framtíð þessarar nýju ríkisstjórnar að hún sýni strax á sumarþingi að henni sé full alvara með þeim fyrirheitum, sem stjórnarflokkarnir og þá ekki sizt Framsóknarflokkurinn hafa gefið um úrlausn á skuldavanda heimilanna.
Þótt enginn ætlist til að hún leysi þau mál í einu vetfangi verður hún að sýna á spilin með skýrum hætti.
Annars getur hveitibrauðsdögum hennar lokið með skjótum hætti.“