Kirkjan er hætt að tala um syndina; áheyrendur vilja ekki heyra um synd og kirkjan lét undir kröfum tímans og hætti að tala um hana. Hún fer sömu leið og Skrattinn – það er búið að úthýsa honum úr ræðum prestanna.
Prestur sem héldi ræðu um djöfulinn og syndina yrði líklega talinn geðveikur. Eða honum yrði bent á að koma sér á framfæri við Krossinn í Kópavogi.
Nú má biskupinn yfir Íslandi ekki einu sinni nota orðið „hatrammur“ – það gengur fram af fólkinu. Krafan er að kirkjan sé alveg sauðmeinlaus – og mestapart hlýðir hún því kalli.
Þá var öldin önnur þegar forveri Karls biskups, Jón Vídalín, prédikaði eitt sinn á jólanóttina – þetta brot birtist í bók Árna Björnssonar sem nefnist Saga jólanna.
Jón kunni að koma orðum að því:
„Enginn kann tveimur herrum að þjóna, en Kristur og Belíal eiga ekkert hlutskipti saman. Nú er holdsins verk augljós, það eru hórdómur, saurlífi, óhreinleiki, lausung, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, þrætur, kappgirni, reiði, þráttanir, sundurþykkja, flokkadráttur, öfund, manndráp, ofdrykkja, ofneysla og þessum líkt. Ef vér þessar syndir æfum og látum þær drottna í voru holdi, þá erum vér ekki Guðs vinir og ekki er hans friður í oss. Ekki kunnum vér heldur við samviskuna frið að hafa nema hún sofi og mun hún þó síðar af illum draum vakna þegar verst gegnir, þegar andskotinn kippir svæflinum undan höfðinu og vér erum síst búnir til mótgöngu honum í dauðans harða stríði. Og þá er hætt við að hennar ormur verði að þeim ormi sem aldrei deyr.“