Það þarf ekki Austfirðinga til.
Heilsugæslan í Reykjavík er ekki góð. Þúsundir borgarbúa hafa engan heimilislækni og komast seint eða illa í viðtöl á heilsugæslustöðvum. Þar þurfa þeir að sæta lagi að fá tíma hjá lækni – sjaldnast þeim sama – og eru svo afgreiddir líkt og á færibandi. Álagið hefur aukist mjög vegna fjölda innflytjenda sem þurfa líka sína læknisþjónustu.
Þeir sem veikjast utan hefðbundins vinnutíma þurfa að leita á læknavakt í Smáranum þar sem oft er löng bið og sama færibandaþjónustan í boði. Þeir sem slasast fara á Slysavarðsstofuna þar sem ægir öllu saman: Slösuðum börnum innan um drykkjufólk og fíkniefnaneytendur.
Þeir sem þurfa að komast til sérfræðinga neyðast oft til að bíða mánuðum saman. Jafnvel hátt í ár þegar ásetnustu sérfræðingarnir eiga í hlut.
Það þarf enginn að segja mér að þetta kerfi sé að virka. Þegar komið er inn á spítalana er þjónustan sjálfsagt nokkuð góð, en í hinni almennu heilsugæslu þarf verulega að taka til hendinni.