Eitt það fyndnasta í árdaga kvikmyndanna voru Keystone löggurnar. Þetta var hópur afar seinheppinna lögregluþjóna sem rataði í alls kyns vandræði – var yfirleitt í tómu rugli.
Stundum finnst manni að svonefndar greiningardeildir bankanna séu eins og Keystone löggurnar.
Eins og til dæmis í morgun þegar allt var að hrynja í Kauphöllinni. Þá var haft eftir greiningardeildum á Mbl.is að markaðurinn væri að „jafnast“.
Ég minni líka á þetta – nýlega spá frá Glitni þar sem gert er ráð fyrir 32 prósenta hækkun hlutabréfaverðs á þessu ári.
Í gamla daga voru spásagnir byggðar á flugi fugla, afstöðu stjarna, svo hafa líka verið notuð telauf og kaffikorgur. Nostradamus sat með hálflukt augu og hélt klofinni trjágrein yfir skál með vatni.
Eru þetta eitthvað lakari aðferðir?