Umberto Eco gerir dulspekinötturum stórkostleg skil í bók sem heitir Pendúll Foucaults. Þetta er bók á svipuðum nótum og Da Vinci lykillinn; bara miklu skemmtilegri og margræðari, skrifuð mörgum árum fyrr.
Og ekki sakar að Eco gerir botnlaust grín að öllu saman.
Í gærkvöld var í Kompási gerð grein fyrir kenningum eins svona nöttara sem telur að lykillinn að ráðgátum musterisriddaranna – alltaf skulu þeir koma við sögu! – sé að finna á íslenska hálendinu. Samkvæmt þessum hugmyndum á Snorri Sturluson að hafa hjálpað riddurunum við að byggja leynihvelfingu á hálendinu til að fela leyndardóma fyrir kirkjunni.
Bók Ecos gengur út á að nokkrir hálærðir grínarar búa til samsæri sem þeim finnst fyndið og teygir sig aftur í aldirnar. Svo koma til skjalanna furðufuglar sem fara að halda að uppdiktað samsærið sé raunveruleikinn. Og um leið verður samsærið raunverulegt – á sinn hátt – með hrapallegum afleiðingum, morðum og blóðsúthellingum.
Auðvitað eru þar líka musterisriddarar á ferð.