fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Eyjan

Misskilningur um Miðbæinn

Egill Helgason
Miðvikudaginn 19. desember 2007 00:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

bilde.jpeg

Í fréttatilkynningu boðenda fundar sem haldinn var um Miðbæinn í kvöld segir:

„Til stendur að rífa nærri 100 hús í miðbæ Reykjavíkur, á Laugaveginum, Hverfisgötunni og í Þingholtunum.“

Jú, það er umdeilanlegt hvort rífa skuli sum húsin á Laugaveginum – líklega ganga niðurrifsáformin þar aðeins of langt. En þetta á ekki við um Nikebúðina svokallaða og húsin þar fyrir neðan. Þetta hafa alltaf verið ómerkilegir kofar. Hugmyndir um varðveislu þeirra ganga í raun út á að byggja ný timburhús í staðinn – í gömlum stíl – og kalla það verndun.

En Hverfisgatan, efri hluti hennar með einlyft timburhús við breiða götu? Getur yfirleitt ljótari, grárri og sorglegri götumynd í norðurálfu – svæðið er svo ömurlegt að engum dettur einu sinni í hug að reyna að skreyta það fyrir jólin.

Og Þingholtin? Hvaða hús á að rífa í Þingholtunum. Ég man ekki eftir að hafa heyrt af þeim áformum. Þingholtin spjara sig ágætlega.

„Hugsanlega á að ryðja Kolaportinu burt og gera bílastæði í staðinn.“

Jú, en Kolaportið er reyndar í stórum ljótum steinkumbalda frá því í kringum 1970.

„Eyða á stórum hluta af byggingarsögu Reykvíkinga. Breyta á gamla miðbænum í Mjóddina eða Spöngina. Helstu einkenni höfuðborgarinnar, sem ferðamenn dást að þegar þeir heimsækja hana, verða þurrkuð út af kortinu.“

Það er kannski ekki þörf á að ýkja þetta svona. Miðborgin þarf á andlitslyftingu að halda. Ég hef ekki enn séð ferðamenn dást að Hverfisgötunni – og reyndar ekki heldur Lækjartorgi eða Bankastrætinu þegar maður gengur upp það hægra megin með sínum auðu og niðurníddu húsum.

„Fyrsta lota niðurrifs á að hefjast í upphafi næsta árs. Hún er sem betur fer ekki byrjuð. Það er ennþá hægt að koma í veg fyrir þetta menningarslys.“

Jú, það er rétt að vernda það sem er nýtilegt og hefur sögulegt eða fagurfræðilegt gildi. En við verðum líka að takast á við það að lifa í samtímanum. Er til dæmis nokkuð annað en gott um það að segja að reisa verslunarklasa milli Laugavegs og Hverfisgötu með bíóhúsi og tiheyrandi?

Það er heldur engin ástæða til að binda niðurrif við lítil og dapurleg timburhús – enda held ég raunar að sú sé ekki ætlunin. Það eru fjölmörg steinhús sem mega alveg kveðja þessa veröld og sum ekki svo ýkja gömul. Sumir steinkumbaldanna sem stendur til að rífa eru einmitt við áðurnefnda Hverfisgötu.

Uppáhaldskaffihúsið mitt er í strætóhúsinu við Lækjartorg. Samt mun ég fagna heitt og innilega þegar það verður rifið.

„Það var kominn tími á að fólkið sem lifir og þrífst hér í miðbænum kæmi sínum sjónarmiðum á framfæri.“

Segir einn þeirra sem boðuðu umræddan fund.

Nú er ég sjálfur íbúi í Miðbænum. Bý í ævafornu húsi á íslenskan mælikvarða. En bíð eftir uppbyggingu á svæðinu, ekki kyrrstöðu eða stöðnun. Aðalmálið er hvernig eigi að byggja – en því miður náum við aldrei að komast út í þá umræðu. Það er alltaf verið að þræta um eitt og eitt hús.

Það er til lítils gagns að láta eins og algjört drasl sé menningarverðmæti. Og svona hreint praktískt – er einhver hér í heimi sem mun vilja bera kostnaðinn af því að gera þetta upp?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef