Ég velti því fyrir mér hvort illur andi sé á ferð hér í húsinu.
Fyrir nokkrum árum keypti ég jötu í Kraká í Póllandi; það er svona lítið Betlehemshús með Jesúbarninu, Maríu, Jósef, fjárhirðum, englum og sauðfé.
Þegar ég tók jötuna fram úr geymslu í morgun sá ég að bæði höfuðið og fæturnir höfðu brotnað af Jesúbarninu.
Annars var allt heilt.
Ég kann enga skýringu á þessu.
Nú í kvöld fór ég í Kringluna. Þar mundi ég eftir að hafa séð pólskar nunnur selja rammkaþólskt jóladót. Ég taldi víst að þær ættu Jesúbarn handa mér.
Sem var líka raunin.
Jesúbarnið sem ég fékk hjá nunnnum er reyndar hlutfallslega alltof stórt fyrir jötuna, en það sómir sér samt ágætlega – kirfilega fest eða það vona ég með UHU-lími.
(Tek fram að það er ekki jatan mín sem er á myndinni.)