Morgunblaðið getur á stundum verið endalaus uppspretta hugsvölunar – sem Fréttablaðið er til dæmis sjaldnast. Næstum á hverjum degi er eitthvað sem yljar manni í Mogganum. Í dag er það hið stóra bál sem logar á ritstjórninni vegna ríkisstjórnarinnar. Stjórnmálaskríbentum blaðsins er vægast sagt í nöp við stjórnina – og þá ekki síst Ingibjörgu Sólrúnu. Hún og hennar fólk framkalla ofnæmisviðbrögð í hverjum Staksteinapistlinum eftir öðrum – í dag er það vegna einhverra orða sem ráðuneytisfólk lét falla um framboðið til Öryggisráðsins.
Mestur fengur er þó að leiðaranum í dag. Þar er staðhæft að ríkisstjórnin sé ótrúlega slöpp og sérstaklega sé ekkert varið í ráðherra Samfylkingarinnar. Ekki bæti úr skák að innan Samfylkingarinnar megi finna „vaxandi hroka gagnvart Sjálfstæðisflokknum“.
Niðurstaða leiðarans er sú að tvennt þurfi að gerast: Vinstri grænir þurfi að slíta meirihlutanum sem situr í Reykjavík og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn.
Og í framhaldi af því eigi að mynda nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
Telur Morgunblaðið að þessi hugmynd eigi fylgi bæði meðal áhrifamanna í Sjálfstæðisflokki og VG.