Ég keypti um daginn bók sem heitir 1001 Buildings You Must See Before You Die.
Eins og margt fólk átti ég einu sinni draum um að verða arkitekt. Það stóð reyndar stutt hjá mér. Fæddist og dó í leiðindum einhverrar gleymdrar skólastofu.
Bók þessi er stórgott yfirlit yfir sögu húsagerðarlistar. Og ágætt hversu mikil áhersla er lögð á 20. öldina og jafnvel þá 21.
Ég hef stundum talað af lítilsvirðingu um íslenska arkitekta. Sumt í því eiga þeir skilið. En það er skemmtilegt að í þessari bók er að finna þrjú hús sem standa á Íslandi:
Hallgrímskirkju (sem var lengi vanmetin bygging en menn eru kannski farnir að sjá í réttu ljósi núna, ekki síst vegna erlendra ferðamanna sem laðast að henni).
Bláa lónið (viðurkenni að það hef ég bara séð á myndum).
Ráðhúsið í Reykjavík (sem mér hefur alltaf þótt mjög fallegt).