Þessi mynd birtist á vef National Geographic. Samkvæmt myndatexta eignaðist blaðið myndina 1943 en hún er tekin 1940. Segir að hún sýni karlmenn sem fylgjast með breskum fótboltamönnum æfa sig á íþróttavelli á Íslandi.
Staðurinn er greinilega gamli Melavöllurinn með bárujárnsgirðingunni í kring. Ég er alinn upp þar í grendinni; við strákarnir í Vesturbænum kunnum ýmsar leiðir til að svindla okkur þangað inn. Stundum klifraði maður yfir girðinguna, stundum skreið maður undir hana, stundum nuðaði maður í vörðunum þangað til þeir hleyptu manni inn.
Þetta voru frekar skrautlegir karlar – auðvitað með kaskeiti.
Maður man líka eftir vallargestum sem stóðu upp á bílþökum utan girðingar – eða reiðhjólum eins og í þessu tilviki. Seinna var farið að kalla þetta „skotastúku“ – líkast til er það tilvísun í meinta aðhaldssemi nágrannaþjóðar okkar í peningamálum.
En myndin er frábær.