Ofboðslega einkennileg umræða er farin í gang um hvers vegna Davíð Stefánsson fékk ekki Nóbelsverðlaunin. Má vel vera að fyrir norðan þyki fólki að Davíð hafi verið hlunnfarinn – en annars staðar í veröldinni hefur aldrei heyrst að Davíð hafi verið talinn verðugur slíkra verðlauna.
En Akureyringar hafa löngum verið sjálfum sér nægir og auðvitað hefðu þeir fyrir löngu átt að stofna sín eigin Nóbelsverðlaun, sbr. textann fræga – „við höfum KEA, við höfum Lindu, við höfum Amaro…við þurfum ekkert að sækja suður…“
Fyrir nokkrum árum skrifaði ég eftirfarandi texta um Davíð Stefánsson, þetta skáld sem þjóðin elskaði heitt á sínum tíma – nema kannski vinstrimenn.
Greinin var svona:
„Guðmundur Andri Thorsson skrifar svellfína grein um Davíð Stefánsson í Lesbókina á laugardag. Kemst nærri kjarna þessa vinsæla skálds; þess síðasta sem orti kvæði sem konur á Íslandi geymdu undir koddanum hjá sér. Guðmundur Andri segir að þetta hafi verið tími þegar ljóðlistin var full af alls konar fólki – nú er þar varla hræða enda eru skáld núorðið mestanpart að yrkja ofan í sjálf sig.
Við lestur á grein Guðmundar Andra rifjaðist upp fyrir mér texti eftir Davíð sem mig rámaði í að hafa lesið á lestrarsal gamla Landsbókasafnsins fyrir aldarfjórðungi. Ég fór til Braga bóksala og hann fann fyrir mig bókina Mælt mál sem hefur að geyma ritgerðir eftir Davíð. Og viti menn, eftir nokkra leit fann ég þetta.
Guðmundur Andri segir að Davíð hafi litið á sig sem hrafn og kennt kvæði sín við krunk. En í rauninni hafi hann verið blíðari en svo: “Söngur hans líktist fremur vinalegri fuglum; hann varð smám saman eins og Ella Fitzgerald að herma eftir Louis Armstrong.”
Davíð sjálfur hefði tæplega borið sig saman við Ellu eða Louis og hugsanlega hefði hann brugðist ókvæða við því að vera nefndur í sömu andrá og þau. Svo vill nefnilega til að hið ástsæla skáld – sem stundum hefur legið undir því ámæli að vera dægurtextahöfundur – lagði fæð á djass eins og margt annað sem honum þótti skrumkennt í samtíma sínum. Í ritgerðinni Hismið og kjarninn, sem er ræða sem Davíð flutti í Fagraskógi sumarið 1958, segir:
“…margur hyggur annað þroskavænlegra íslenzkri æsku en villimannaöskur og tónatjasl frumstæðra blökkumanna og hvítra gervinegra, sem hafa knæpuna fyrir musteri og kynhvötina fyrir sinn guð, gegnsósa af wiskýblöndu og tóbaksreyk. Óhljóð þeirra eiga ekkert skylt við tónlist, en minna fremur á nágaul, breima ketti og urgið í hrossabrestinum sem notaður var í mínu ungdæmi til þess að fæla hesta úr túni og æsa daufgerða hunda.”