Á sama tíma og berast fréttir af því að við búum í besta landi í heimi þá er ég að lesa einhverja hrikalegustu bók sem ég hef augum litið. Ég var eitthvað að pirra mig út af fréttaflutningi af sjálfum mér í fjölmiðlunum, ætlaði að vera með einhvern kverúlans við ritstjóra 24stunda, en svo þegar hann hringdi í mig gat ég eiginlega ekki talað við hann af því ég var sokkinn ofan í bókina.
Fannst eiginlega hallærislegt að vera að eyða tíma í svona mitt í frásögnum af svo hrikalegri eymd og hörmungum.
Bókin – Planet of Slums nefnist hún – fjallar um geysilegan vöxt sem hefur hlaupið í borgir sunnar á jörðinni meðfram því að fólk flytur unnvörpum úr sveitum. Afleiðingin er sú að það hefur verið að myndast fjöldi borga sem hafa allt upp í tuttugu milljón í búa (gæti fjölgað í 30 milljónir) og gríðarlega stór fátækrahverfi.
Lagos, Mumbai, Mexíkóborg, Karachi, Shanghai, Sao Paolo, Kairó – upptalningin getur verið ansi löng.
Í þessum fátækraborgum lifir fólk við ömurlegan kost. Algengasta dánarorsökin er í raun óhreinindi. Óhreint vatn. Óhreinn matur. Atvinnu er enga að hafa; við erum að horfa á milljarða fólks sem hefur í raun ekkert að gera nema að reyna lifa hvern dag af. Það er telst varla með í hagkerfinu. Höfundurinn, Mike Davis, notar hugtakið surplus humanity – það er heldur nöturlegt.
Maður er hálf hjálparvana gagnvart þessu. Kannski er þetta stærsta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir? Er nóg að hringja bara í ABC-hjálparstarf? Sjálfur hef ég bara einu sinni á ævinni séð svona slömm. Það var í Kairó. Máski þyrfti maður að fara oftar?
Svona upp á sjóndeildarhringinn að gera.