Einhverjir hafa fundið að því að ég hafi sagt að handhafar verðlaunanna sem eru kennd við Jónas Hallgrímsson sé fólk sem er á grafarbakkanum.
Flest er þetta hið mætasta fólk og margt á skilið að fá viðurkenningu.
En ég sakna hins vegar þeirra sem eru að nota málið með lifandi og skapandi hætti hér og nú.
Ég nefni til dæmis Bubba Morthens, sem hefur staðið í langri glímu við íslenskuna, nýsköpunarmann í bókmenntum eins og Hallgrím Helgason, Gyrði sem skrifar fágaðri texta en aðrir Íslendingar, Stuðmannahópinn sem setti ný viðmið fyrir dægurlagatexta á íslensku, Sjón sem hefur skrifað ljóð, skáldsögur og söngtexta, Baggalút jafnvel.
Ég sakna líka fjölmiðlarfólks af þessum lista – tek fram að ég er ekki að sníkja verðlaun fyrir sjálfan mig – en hvar er mikilvægara að sé notuð góð íslenska en einmitt á fjölmiðlunum? Og sumir fjölmiðlamenn eru býsna góðir – í svipinn man ég eftir Brodda Broddasyni, Sigmundi Erni, Illuga Jökulssyni.
Verðlaunin væru þá frekar hvatning en viðurkenning fyrir ævistarf.
En í staðin hefur verið rík tilhneiging til að verðlauna varðstöðumenn íslenskunnar – kennara og málvöndunarsinna – en þessir menn nálgast ekki alltaf tunguna með sérlega frjóum hætti þótt þeir geri kannski sitt gagn.
Ég man til dæmis að í skólastofnun sem er hérna í næsta húsi við mig var gerð kröftug tilraun til að gereyða áhuga mínum á íslenskum bókmenntum – og tókst næstum.