Á aðaltorginu í Ljubljana stendur styttan af Jónasi Slóveníu. Hann hét France Preseren og er eiginlega upp á hár samtímamaður Jónasar Hallgrímssonar, fæddur 1800, dáinn 1849 – rómantískt skáld og þjóðfrelsishetja. Og eins og Jónas átti hann óhamingjusama ævi, drakk sig líklega í hel, dó snauður, með skorpulifur.
Óttar Guðmundsson hefur ritað um stærðina á lifur Jónasar þegar hann dó, fjórum árum á undan Preseren. Það er merkilegt að sjá hvað Jónas var búinn að fara skelfing illa með sig.
Fjölmargar þjóðir eiga skáld af þessu tagi; óhamingjusama rómantíkera sem öðlast þjóðhetjustatus. Þetta er erkitýpa. Í Rússlandi er það Púsjkín, í Ungverjalandi Petöfi, í Póllandi Mickiewicz og í Englandi auðvitað Byron lávarður. Það er ábyggilega hægt að nefna fleiri; fyrri hluti 19, aldar var tími ólánsamra þjóðskálda.
Á rómantíska tímanum öðlast listamenn status sem þeir höfðu ekki áður. Þeir hætta að verða þjónar; verða jafnvel æðri nokkrum kóngi. Fræg er saga af Goethe og Beethoven sem eru að ganga í garði hjá einhverjum þýskum kóngi. Líklega er hún ekki sönn, en inntak hennar er það.
Þeir félagarnir ganga fram á kónginn. Goethe sem er eldri maður víkur úr vegi og hneigir sig. Beethoven gengur hnarreistur beint af augum – veit eins og er að það er hann sem er raunverulega konungborinn.
Jónas Hallgrímsson er ekki bara gott skáld. Hann er uppi á hárréttum tíma til að verða þjóðskáld. Hann tileinkar sér hinn rómantíska anda sem er grundvöllur þjóðernisstefnunnar.
Þetta skilur ekki fólk sem ég hef á bloggsíðum séð tala um að Sigurður Breiðfjörð eða Bólu-Hjálmar séu í rauninn verðugri þjóðskáld. Þeir eru kannski þjóðlegri skáld, en engin þjóð gerir kotkarl að þjóðskáldi.