Fólk getur þrasað um furðulega hluti. Nú hefur tekið sig upp talsverð umræða í bloggheimum vegna lítils pistils sem ég skrifaði um manntegundina „próflausa aumingja“. Meðal annars er þessi grein eftir Sóleyju þar sem hún hefur áhyggjur af því að þessir karlar hafi verið teknir fram yfir hæfari og betur menntaðar konur við útdeilingu þess sem kallast toppstöður.
Við þetta ætla ég að gera eina athugasemd, það er víst ekki svo að við próflausu karlarnir höfum átt greiðan aðgang að toppstöðum (tek fram að ég er ekki að halda því fram að það tíðkist ekki að setja karla í stöður þar sem konur væru hæfari eða jafnhæfar).
Ég er búinn að vera í fjölmiðlum í 26 ár, hef lengst af verið óbreyttur liðsmaður, stofnaði svo sjónvarpsþátt í lítilli bílskúrsjónvarpsstöð fyrir níu árum, hann er nú orðinn að þessu dæmi.
Gunnar Smári þurfti að stofna sitt eigið blað til að komast í toppstöðu.
Illugi hefur ekki verið í neinni toppstöðu nema að hann ritstýrði DV um tíma, hann hefur verið álíka lengi í fjölmiðlum og ég. Hrafn var ritstjóri Alþýðublaðsins sem dó. Það var varla nein toppstaða.
Ég nefni Ómar. Hann er nú varla í toppstöðu.
Ég tel ekki að neinn okkar hafi rutt burt konum til að komast á þann stað sem við erum. Fyrir mörgum árum kom reyndar til álita að ég fengi fastráðningu á fréttastofu Sjónvarpsins. Þá var kona tekin fram fyrir mig – guðsélof – eftir á að hyggja langaði mig voða lítið í stöðuna.
Tek fram að nú þegar ég hef störf á Sjónvarpinu er það nánast í fyrsta skipti á ævinni að ég er fastráðinn.
Fólkið sem fær toppstöðurnar er annarar tegundar. Og yfirleitt innundir hjá valdinu og pólitískum flokkum.
Það eru hinir „próflausu aumingjar“ sjaldnast.