fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Eyjan

Um ritskoðun

Egill Helgason
Föstudaginn 2. nóvember 2007 17:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég ætla helst ekki að segja orð meira um þetta mál. Ritskoðunarhliðin á því er þó áhugavert umræðuefni – menn verða að gera sér grein fyrir að til er alls konar ritskoðun, hún felst ekki bara í því að yfirvöldin gefi út tilskipun:

Þetta segir Jónas Kristjánsson í pistli á heimasíðu sinni í dag:

„Ef fólk byrjar að brenna bækur hér á Íslandi, fer það um síðir að brenna fólk. Forsjárhyggja félagslegs rétttrúnaðar leysir málfrelsi af hólmi. Þegar fólk fer að ákveða, hvaða bækur eigi að banna eða hvaða bækur eigi að fá skertan aðgang að fólki. Nú er talað um Tíu litla negrastráka. Hvað um annan texta, sem stríðir gegn félagslegum rétttrúnaði? Umræðan um málið veldur mér sömu klígju og þegar ég les annan fasistískan áróður. Þeir, sem næst komast fasisma í nútímanum, eru forsjármenn að norrænum hætti. Það er fólk, sem sí og æ hefur vit fyrir öðrum með undarlegum boðum og bönnum.“

Og svona tjáir Andri Snær sig um málið í Fréttablaðinu í dag. Hann segist vera á báðum áttum:

„Andri segir að þar sem margir virðist taka endurúgáfunni illa eigi að virða það. „Hins vegar er hættan sú að það sama gerist og í Bandaríkjunum, þar sem er tilhneiging til að ritskoða þessa hluti allrækilega. Á meðan fara miklu ógeðslegri hlutir upp á yfirborðið á netinu og í tölvuleikjum. Í þýðingu á Bláa hnettinum fyrir Bandaríkjamarkað átti til dæmis að taka fyrir selát. Tólf ára börn í Bandaríkjunum mega sem sagt ekki lesa um selát en það er í lagi að spila Grand Theft Auto. Þetta er ofboðslega þversagnakennt.“

Þá telur Andri möguleika á að umræðan sjálf verði skaðleg. „Börn skynja ekki að vinir þeirra séu öðruvísi þótt þeir séu ekki eins á litinn. En svo ætlum við hin fullorðnu að hefja einhverja upplýsta umræðu og af henni gætu börnin lært öll orðin og hugmyndirnar sem ekki þykir við hæfi að nota. Mér finnst engin augljós lending í þessu; þetta er félagslegt jarðsprengjusvæði.“

Baldur McQueen sem er búsettur í Bretlandi sendi mér fyrirspurn þar sem hann spurði hvort ég teldi að ætti að banna hatursrit sem er dreift í gegnum moskur í Bretlandi. Harðar deilur hafa verið um þetta mál undanfarið. Ég svaraði honum á þessa leið:

„Mér hefur fremur virst að ritskoðunin gangi í hina áttina, þ.e. það eru íslamistar sem ritskoða – og hafa fengið til þess furðu góða aðstoð frá fjölmenningarsinnum.

Það voru ekki margir sem voru tilbúnir til að verja Salman Rushdie á sínum tíma þegar hann var undir lögregluvernd og þýðendur hans voru myrtir út um allan heim.

Það er kvartað undan því að Hirsi Ali sé hægri öfgakona vegna þess að hún vill að konur og samkynhneigt fólk sé ekki kúgað í hinum íslamska heimi. Henni hefur sjálfri verið kennt um hvernig fyrir henni er komið, hún er landflótta, getur hvergi um fjálst höfuð strokið. Þegar Hirsi Ali kom til Íslands um daginn heyrði maður enduróm af þessum viðhorfum.

Ég rifja upp morðið á Theo Van Gogh sem var hin endanlega ritskoðun.

Og skopmyndamáli danska þar sem maður þurfti að reyna að skýra út fyrir fjömenningarsinnum einföldustu atriði tjáningarfrelsisins.

Hver myndi í Bretlandi eða víðar í Evrópu þora að setja upp leik- eða listsýningu þar sem íslamstrú er gagnrýnd?

Ég hef ekki fylgst með þessari umræðu í Bretlandi, hef ekki komið þangað síðustu vikurnar, en við fyrstu sýn myndi ég halda að ekki eigi að banna þessi rit – fremur en til dæmis Kóraninn. Vandinn er líka að sumir sem teljast talsmenn hófsamra múslima eru alls ekkert hófsamir á okkar vestræna mælikvarða. Eigum við líka að banna þá?

Um leið er auðvitað vandamál hvernig á að taka á öfgasinnuðum múslimum í moskum Bretlands. Bent hefur verið á að það sé vandi sem engir nema múslimar sjálfir geta ráðið við.

Almennt séð hef ég ofnæmi fyrir yfirvaldi – hvort sem það er andlegt eða áþreifanlegt – sem vill ritskoða það sem við lesum. Hefur þau áhrif á mig að ég fyllist óþolinmæði, og að sumu leyti óþekkt.

Ritskoðun er líka vond að því leyti að þegar við höfum ritskoðað eina bók, grein eða skoðun, hættir okkur til að fara að ritskoða fleiri bækur, greinar eða skoðanir. Það er spurning hvar ritskoðunin byrjar og hvar hún endar. Hverjir eiga líka að framkvæma ritskoðunina – hvaða yfirvald? Björn Bjarnason, Sóley Tómasdóttir, alþjóðahúsið, Samfylkingin?

Ég á reyndar við ýmsar tegundir af yfirvaldi. Skopmyndirnar dönsku birtust til dæmis í engum fjölmiðli á Bretlandi. Breskir fjölmiðla- og stjórnmálamenn töldu sig hins vegar þess umkomna að fordæma myndirnar – sem þeir höfuðu líklega ekki séð.

Öll erum við vonandi á móti á móti rasisma og postulum mannfyrirlitningar og mannhaturs.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni