fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Eyjan

Stuð fyrir bókabrennu

Egill Helgason
Miðvikudaginn 31. október 2007 08:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér er nokkuð mikið aukin útgáfa af grein sem ég setti á vefinn í gær:

Við erum komin út á ansi hálan ís þegar við erum farin að saka fólk um einhvers konar Ku Kux Klan út af gamalli barnabók sem er endurútgefin. Merkilegt er að heyra þá sem hafa tekið upp hanskann fyrir negrastrákabókina vera kallaða rasista.

Það er dálítið hart.

Negrastrákabókin hefur engar slíkar skírskotanir hér á landi sem talað er um í bloggfærslu míns ágæta vinar Gauta Eggertssonar. Eins og Kristján B. Jónasson bendir á í ágætri grein setur Gauti hana í amerískt umræðusamhengi en ekki íslenskt. Kvæðið berst líklega hingað frá Bretlandi en ekki Bandaríkjunum – sem veldur að greining Gauta er að miklu leyti röng. Ef rýnt er í kvæðið – sem ég ætla alls ekki að halda fram að sé merkar bókmenntir – ætti það fremur að vera út frá nýlendustefnunni en Jim Crow.

Eins og ég hef áður getið las ég bókina fyrir son minn löngu áður en þessi umræða hófst og honum fannst hún skemmtileg. Við tókum satt að segja ekki eftir því að neitt væri að bókinni. Vorum heldur ekki að leita að því. Kannski erum við svona slappir í að greina staðalímyndir.

Ég spurði hann þegar umræðan fór af stað hvort honum þættu börn sem væru dökk á hörund eitthvað öðruvísi en hann:

„Nei, þau eru bara öðruvísi á litinn.“

Og eins og Kolbrún Bergþórsdóttir bendir á þá enda negrastrákarnir vel. Síðasti strákurinn fer í bíó, hittir stelpu, þau eignast fullt af börnum og eru hamingjusöm það sem eftir er. Fara og uppfylla jörðina.

— — —

Ef út í það fer má líka segja að miklu verri skrumskæling á svörtu fólki blasi við okkur hvern dag í sjónvarpinu – í endalausum myndböndum þar sem ungir þeldökkir menn með gullkeðjur um hálsinn fara með einhvers konar músík en fáklæddar konur hrista á sér rassinn allt í kringum þá. Sumt af þessu kallast gangstarapp. Í því felst einkennileg upphafning á smákrimmahætti; eins og það sé æðsta markmið hvers ungs blökkumanns að vera glæpon.

Þetta er daginn út og inn í sjónvarpinu, sérstaklega á stöðvunum sem börnin og unglingarnir horfa á, en yfir þessu heyrir maður samt ekki kvartað.

— — —

Annars er maður dálítið á verði þessa dagana gagnvart fulltrúum góðmennskunnar í samfélaginu, þeim sem halda því fram að það sé „aðskilnaðarstefna“ ef kirkjan vill ekki nota orðið hjónaband um homma og lesbíur (hvílík gengisfelling á einu orði!), hafa það sem forgangsmál þegar þeir komast til valda í pólitík að loka nektarstöðum, skrifa systkin í Biblíuna þar sem stendur bræður, breyta þar líka orðinu þræll í þjón, ætla að láta opinbera starfsmenn skrifa undir yfirlýsingu um að þeir horfi ekki á klám á hótelum – og vilja banna negrastrákana, eða ég heyri ekki betur.

Ég er allavega farinn að heyra kröfuna um að bókin verði tekin úr bókabúðum. Ritskoðun felst ekki bara í því að banna útgáfu bóka, heldur getur hún til dæmis líka falist í því að hræða bókabúðir eða bókasöfn til að hafa þær ekki frammi.

— — —

Þessi straumur er býsna sterkur í pólitíkinni þessa dagana. Hann hefur fundið sér stað á mörkum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og má því líklega segja að hann sé kominn til valda í borginni okkar.

Á ensku heita þetta identy politics og upphófst þegar sósíalisminn beið skipbrot á sínum tíma. Vinstri menn sáu að enginn hljómgrunnur var lengur fyrir því að breyta þjóðfélagsgerðinni sjálfri – stefna þeirra var í rauninn dauð – og þá einhentu þeir sér yfir í fjölmenningarhyggjuna og femínismann.

Á sama tíma hafa hinir góðu vinstri menn löngu gleymt alþýðunni og kjörum hennar. Meðal hennar er líka helst að finna þá fordóma sem hið góða millistéttarfólk á vinstri vængnum hefur óbeit á.

Þetta verður kannski að hafa sinn gang, en þetta er orðið pínu yfirdrifið. Verst er kannski hvað lífsviðhorf sem felur í sér sífellda leit að einhverju sem getur talist móðgandi eða særandi er skelfing leiðinlegt.

Einhvern veginn sýnist mér þetta líka vera sama fólkið fáraðist hvað mest og yfir skopmyndunum af Múhammeð sem birtust í Jótlandspóstinum og taldi þær vera hina örgustu móðgun við allan hinn íslamska heim.

Við Ólafur Teitur Guðnason stóðum tveir einir á fjölmennum opinberum fundi þar sem við vörðum rétt danska blaðsins til að birta myndirnar. Allir aðrir fundarmenn voru á móti.

Fundurinn var haldinn hjá Blaðamannafélaginu!

—- — —

Nokkur dæmi:

Í klassískri sænskri bók, Bombí Bitt, er sagt frá hrossaþjófinum Niels Galle, sem er skemmtileg andhetja. Hann segir strákunum sem eru aðalpersónur bókarinnar frá því hvernig hann komst inn í leynifélagið Kuk Lux Lan. Það var með því að skjóta gyðing og setja byssuna í vasann á negra sem svo var hengdur fyrir vikið.

Þetta er ein skemmtilegasta barnabók sem hefur verið skrifuð.

Við getum nefnt Ólíver Twist með sinn Fagin, hreinræktaða staðalímynd hins ágjarna gyðings.

Bækur Kiplings. Með sinni upphafningu á nýlendustefnunni.

Kofi Tuma frænda. Karlinn er dæmigerður fyrir hinn auðsveipa svertingja sem lætur hvíta manninn kúga sig.

Kvikmyndina Birth of a Nation, merkilegt listaverk, gallað, en kannski fyrstu bíómyndina í nútíma skilningi.

Stikkilsberja-Finn og Tuma Sawyer. Þær hafa raunar þegar verið gerðar útlægar úr mörgum bandarískum menntastofnunum; slíkt er andrúmsloftið þar.

Max og Móritz þar sem tveir pattaralegir þýskir drengir eru malaðir í myllu og svo étnir af hænsnum. Eða breytir einhverju að þeir eru hvítir?

Áður hefur verið fjallað um Tinna í Kongó og Línu í Suðurhöfum.

Svo má nefna Kaupmann í Feneyjum eftir Shakespeare.

Og Wagner sem margir fella sig alls ekki við.

Hvar byrjar þetta og hvar endar það?

Við getum beitt svipuðum lestri og Gauti notar á negrastrákana á allar þessar bókmenntir og miklu meira. Það væri hægt að skrifa lærða ritgerð þar sem færð yrðu góð rök fyrir nauðsyn þess að banna til dæmis Óliver Twist. Við getum hæglega tengt hana við Auschwitz – sagt að bókin sé næsti bær við.

En þá liggur við að maður segi eins og Kristmann Guðmundsson um Elskhuga Lady Chatterleys þegar yfirvöld voru að banna hana hér í félagi við slökkvilið velsæmisins:

Þeir sem sjá klám í þessu eru dónar sjálfir.

— — —

Fyrir aldarfjórðungi fór hamförum í Bandaríkjunum félagsskapur sem hét Moral Majority. Hann var eins konar undanfari pólitískrar rétthugsunar, með aðeins öðrum formerkjum. Móralski meirihlutinn fékk því framgengt að alls konar bækur voru gerðar útlægar úr bókasöfnum og bókabúðum vestra, sumt af því voru lélegar bókmenntir sem flestum var sama um, en þar voru líka verk eftir höfunda eins og Jack Kerouac, Kurt Vonnegut, Joseph Heller og J.D. Salinger.

Móralski meirihlutinn hafði svosem ýmislegt til síns máls. Heller kenndi fólki að nota dóp, droppaðu út var boðskapur Salingers. Kerouac sameinaði þetta tvennt. Þetta var ekki endilega holl lesning fyrir unglinga.

Það má jafnvel segja að sumt ungt fólk hafi goldið fyrir þessar bækur með lífi sínu.

Samt mætti þessi ritskoðun harðri andstöðu út um allan heim. Ég man meira segja eftir því að henni hafi verið mótmælt hér á Íslandi.

Ég las á bloggi eins ofurfemínistans að eftir að hafa lesið grein Gauta sé hún komin í stuð fyrir bókabrennu:

„Ég held svei mér þá eftir lesturinn að ég væri til í bókabrennu!“

Má þá minna á það sem Heinrich Heine sagði:

„Þegar bókabrennur hefjast líður ekki á löngu þar til farið verður að brenna fólk.“

Í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu.

— — —

Á myndunum hér að neðan sést hvernig söng- og dansstjarnan Josephine Baker kom heiminum fyrir sjónir um svipað leyti og negrastrákabókin var teiknuð uppi á Íslandi. Líkindi framsetningarinnar eru allnokkur – samt er Baker fremur tengd við frelsun svarta kynstofnsins en kúgun hans. Kannski er túlkun myndanna ekki alveg jafn einhlít og Gauti vill vera láta?

Ef út í það er farið.

baker41.jpgbaker39.jpg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni