fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024

Hrönn: „Það er erfitt að lasta foreldra fyrir að hafa ekki tíma fyrir börn sín“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 15. september 2019 11:00

Hrönn vill gera samfélagið barnvænna. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrönn Valgeirsdóttir hefur um langt skeið rannsakað foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf en hún starfar sem leikskólakennari. Hún segir fjarveru foreldra hafa bein áhrif á hegðunarvanda barna og hún vill stytta vinnuvikuna og bæta þannig samfélagið. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á börnum og verið mikið í kringum börn,“ segir Hrönn, en sjálf á hún þrjá drengi á aldrinum þriggja til þrettán ára. „Fljótlega eftir útskrift úr framhaldsskóla ákvað ég að mennta mig sem leikskólakennari og útskrifaðist sem slíkur árið 2006. Ég hef unnið við það síðan með hléum vegna fæðingarorlofs og árs námsleyfis. Árið 2015 ákvað ég að mennta mig meira og skráði mig í meistaranám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við Háskóla Íslands og útskrifaðist nú í júní 2019. Nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf er kennt í samstarfi við Háskólann í Minnesota og ég sótti tvo áfanga þangað í fjarnámi. Í Minnesota eru starfandi foreldrafræðarar og allir foreldrar sækja fræðslu um foreldrahlutverkið og uppeldi.

Köllum okkur foreldrafræðara

„Hugmyndin að meistararannsókn minni kviknaði bæði vegna umræðu við samnemendur mína og kennara í námi mínu um foreldra í íslensku samfélagi. En einnig vegna þess að leiðbeinandi minn, Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor á menntavísindasviði, sem leiðir og stýrir yfirgripsmikilli rannsókn sem ber heitið „Foreldrafræðsla á Íslandi: hver er þörfin?“, bauð mér að taka þátt í henni. Rannsókn mín er hluti af þeirri rannsókn. Í minni rannsókn kannaði ég hvort deildarstjórar leikskóla, í flestum landshlutum, telji vera þörf fyrir fræðslu um uppeldi og stuðning fyrir foreldra leikskólabarna. Auk þess kannaði ég hvaða þætti þeir telja mikilvægt að fræða foreldra um og þeirra reynslu af því að veita foreldrum fræðslu. Það var áhugavert að heyra sjónarhorn deildarstjóra um þetta viðfangsefni þar sem ég sjálf er deildarstjóri, foreldri og foreldrafræðari, eins og við köllum okkur sem höfum lokið þessu meistaranámi.“

Breytingar í átt að barnvænna samfélagi

Eðli málsins samkvæmt tengdi Hrönn því vel við reynslu deildarstjóranna sem hún ræddi við, en hún segist einnig hafa átt afar auðvelt með að setja sig í spor foreldra. „Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þær miklu samfélagslegu breytingar sem hafa orðið síðustu áratugi hafi töluverð áhrif á foreldra í þeirra hlutverki. Foreldrar vinna iðulega langa daga og því hefur dvalartími barna lengst umtalsvert síðustu tuttugu ár. Þátttakendur rannsóknarinnar töluðu allir um þann mikla tímaskort sem virðist hrjá marga foreldra og þann mikla hraða sem ríkir í samfélaginu. Þátttakendurnir vilja sjá breytingar í átt að barnvænna samfélagi þannig að vinnudagur foreldra og dvalartími barna í leikskólum yrði styttri, sem og að fæðingarorlof yrði lengra.

Hegðunarvandi hefur aukist töluvert að mati þátttakenda og hafa þeir áhyggjur af þeirri þróun. Þeir töldu flestir að uppbygging vinnumarkaðarins hafi áhrif á samveru foreldra og barna og að sama skapi hafi lítil samvera áhrif á aukinn hegðunarvanda barna. Sumir töldu aukinn hegðunarvanda vera vegna skorts á öruggum geðtengslum milli foreldra og barna. Allir þátttakendurnir voru sammála um að það væri þörf á aukinni fræðslu um uppeldi almennt, en þó helst um aga, þroska barna, vænlegt uppeldi og samskipti. Einnig vildu margir sjá að það yrði skylda fyrir foreldra með fyrsta barn að fara á uppeldisnámskeið.“

„Fræðsla um uppeldi ætti að vera eðlilegur hluti þess að eignast barn.“
Mynd: Eyþór Árnason

Aðspurð hvað hafi komið mest á óvart við gerð rannsóknarinnar segir Hrönn það hafa verið þá staðreynd að allir þátttakendur virtust upplifa það sama, hvort sem þeir voru á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögum þar í kring, á Norðurlandi eða Suðurlandi. Mikill hraði í samfélaginu, tímaskortur foreldra, mikil áhersla á vinnumarkaðinn og langur vistunartími barna.

„Einnig var áberandi hversu margir töluðu um aukinn hegðunarvanda og hversu mikið börn stjórna foreldrum sínum í dag. Mér fannst merkilegt að þátttakandi í sveitaskóla upplifði það sama og þátttakendur á höfuðborgarsvæðinu.“

Leikskólar koma ekki í stað foreldra

Ástæðu þess að Hrönn nefndi rannsókn sína „Það er erfitt að lasta foreldra fyrir að hafa ekki tíma fyrir börn sín“ segir hún hafa verið vísun í þá átt sem íslenskt samfélag er að stefna í. „Ef ég tala út frá mínu hjarta, þá tel ég að langflestir foreldrar vilji verja meiri tíma með börnum sínum en þeir gera og geta. Í íslensku samfélagi er svo mikil áhersla lögð á vinnumarkaðinn og meira hugsað um að bæta þjónustu við foreldra svo þeir geti unnið meira. Til dæmis með því að byggja ungbarnaleikskóla í stað þess að lengja fæðingarorlof. Að mínu mati ættum við frekar að horfa til Svíþjóðar þar sem fæðingarorlof er mun lengra eða 480 dagar. Auk þess sem foreldrar geta nýtt fæðingarorlof sitt fram að átta ára aldri barna sinna. Það hafa margir íslenskir sérfræðingar stigið fram og talað gegn því að börn fari of snemma í daggæslu en það virðist lítið hlustað á þá. Auk þess er fjöldi rannsókna sem sýnir mikilvægi þess að börn séu sem lengst heima með foreldrum sínum. Íslenskir leikskólar eru, að ég tel, með þeim bestu í heimi en þeir koma ekki í stað foreldranna fyrstu tvö til þrjú árin í ævi barns. Ég veit vel að það eru ekki allir foreldrar sem gætu hugsað sér að vera heima í tvö til þrjú ár með börnum sínum, en það ætti að minnsta kosti að vera val fyrir foreldra.“

Feimnismál að sækja foreldranámskeið

Ljóst er að geðheilsa barna er Hrönn mjög hugleikin og hún hefur lesið mikið og hugsað um það hvernig hægt sé að bæta geðheilsu barna.

„Miðað við rannsóknir og fréttir þá þarf að fara að gera eitthvað í samfélaginu til þess að bæta hana. Ég tel að fyrsta skrefið væri að lengja fæðingarorlof, fræða foreldra um mikilvægi geðtengsla og styrkja foreldra í þeirra hlutverki. Það er nefnilega svo skrýtið, að það er bara þannig í okkar samfélagi að allir eiga að vera fæddir foreldrar og vita allt um hlutverkið þegar þeir eignast barn.

Bakgrunnur fólks er mismunandi, sumir hafa til að mynda ekki alist upp við ákjósanlegar aðstæður og þá er ekkert skrýtið að þeir einstaklingar standi kannski höllum fæti þegar kemur að uppeldi. Það er einnig ótrúlegt að það teljist eðlilegt fyrir hundaeigendur að sækja hundanámskeið, en þegar fólk eignast barn þá þarf það að leita sérstaklega eftir fræðslu um uppeldi. Það virðist jafnvel vera svolítið feimnismál að sækja foreldranámskeið og gjarnan ekki gert nema þegar upp koma erfiðleikar í uppeldinu. Mér finnst því að það þurfi að gera fræðslu um uppeldi að eðlilegum þætti í því að eignast barn.

Foreldrahlutverkið er krefjandi, en foreldrar í okkar samfélagi hafa kannski ekki allir stuðning frá fjölskyldu og vinum, því tel ég að það væri eitt skref í átt að barnvænna samfélagi að bjóða upp á almenna fræðslu um uppeldi sem byggir á gagnreyndum aðferðum. Þess vegna langar mig að geta boðið upp á fræðslu líkt og er í Minnesota þar sem foreldrar hittast og ræða ýmis málefni undir stjórn foreldrafræðara. Það styrkir foreldra að hlusta á aðra foreldra tala um þeirra reynslu en einnig að geta alltaf leitað til sérfræðings líkt og foreldrafræðara. Ég sé til að mynda að leikskólar gætu verið ágætis vettvangur til að byrja með, þar þekkjast foreldrar og yrðu því kannski ófeimnari við að ræða ýmis mál tengd uppeldi og foreldrahlutverkinu. Ég fagna umræðu um styttingu á vinnuvikunni sem ég tel vera annað skref í að bæta samfélagið.

Það eru svo ótrúlega margir foreldrar með samviskubit vegna þess hve lengi þeir eru frá börnum sínum vegna vinnu. Margir þátttakendur rannsóknar minnar tengdu mikla fjarveru foreldra við hegðunarvanda barna, því lítil samvera foreldra og barna er einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á hegðun barna. Að mínu mati þarf að gera breytingar í samræmi við það sem ég hef rætt um hér að framan í íslensku samfélagi, fyrst og fremst til þess að bæta líðan barna en einnig til að bæta líðan foreldra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum

Liverpool og Feyenoord að ganga frá smáatriðum
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða

Fyrstu kaup Slot gætu orðið áhugaverð – Kostaði lítið fyrir ári en nú kostar hann tæpa 10 milljarða
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe

60 ára og skrefi nær því að verða elsti þátttakandi Miss Universe
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“

Þurfti að læra að lifa upp á nýtt eftir maníu – „Það er partur af mér að vera með geðhvarfasýki og það er enginn dauðadómur, trúðu mér“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum

Dregið í bikarnum – Stórleikur í Garðabænum