
Orri Steinn Óskarsson, landsliðsframherji og leikmaður FC Kaupmannahafnar, er orðaður við Real Sociedad í spænska miðlinum Mundo Deportivo.
Orri, sem verður tvítugur í lok mánaðar, þykir vera afar spennandi leikmaður fyrir framtíðina. Kappinn er þegar kominn með fjögur mörk í dönsku úrvalsdeildinni í fyrstu fimm leikjum nýs tímabils.
Mundo Deportivo vekur athygli á að það yrði ekkert nýtt fyrir Real Sociedad að sækja framherja frá Norðurlöndunum. Liðið hefur verið með Alfreð Finnbogason, Alexander Isak og Alexander Sorloth í sínum röðum.
Einnig kemur fram að aldur og leikstíll Orra henti Sociedad, sem hafnaði í sjötta sæti La Liga í vor, vel og að Íslendingurinn gæti orðið góður fyrir liðið í mörg ár.
Einnig er sagt frá því í sömu frétt að Girona hafi sýnt Orra áhuga, en liðið spilar í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.