Evrópumótið í Þýskalandi er hafið og það má segja að heimamenn hafi hafið það með stæl.
Þjóðverjar mættu Skotum í opnunarleiknum og unnu þægilegan sigur. Florian Wirtz kom þeim yfir á 10. mínútu og á 19. mínútu tvöfaldaði Jamal Musiala forskotið.
Undir lok fyrri hálfleiks fengu Þjóðverjar svo vítaspyrnu. Ryan Porteous reyndist brotlegur og fékk rautt spjald fyrir. Kai Havertz fór á punktinn og skoraði. Staðan í hálfleik 3-0.
Niclas Fullkrug kom inn á sem varamaður og um miðjan seinni hálfleik skoraði hann fjórða mark heimamanna. Gestirnir áttu eftir að minnka muninn með skrautlegu sjálfsmarki Antonio Rudiger á 87. mínútu en annar varamaður, Emre Can, innsiglaði 5-1 sigur í blálokin.
Mögnuð byrjun heimamanna sem eru til alls líklegir á mótinu.