Aðvörunarljós hafa blikkað síðustu vikur og mánuði í frönskum fjölmiðlum og hafa ráðherrar og hagfræðingar varað við því að mikill hallarekstur hins opinbera og stjórnlausar skuldir séu bein ógn við efnahaginn.
Samkvæmt tölum frá frönsku hagstofunni þá var hallarekstur ríkisins á síðasta ári 154 milljarðar evra.
Olivier Marleix, leiðtogi Repúblikana á þingi, sakar Macron um leyna stöðunni nú í aðdraganda kosninganna. „Ógnin við Frakka er að við verðum gjaldþrota,“ sagði hann í samtali við Le Figaro og sagði Macron bera ábyrgð á stöðunni: „Macron gerir allt sem í hans valdi stendur til að leyna því hversu alvarleg staða efnahagsmála er. Á 40 árum hefur Frakkland safnað skuldum upp á 2.000 milljarða evra. Við næstu áramót mun Emmanuel Macron hafa bætt 1.000 milljörðum við.“
Insee segir að heildarskuldir Frakka í árslok 2023 hafi verið 3.101 milljarður evra eða 110,6% af vergri landsframleiðslu.