Georgískur karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrir að hafa ekki sýnt laganna vörðum skilríki og sannað á sér deili þegar höfð voru afskipti af honum utandyra við húsnæði á Miklubraut þann 19. ágúst síðastliðinn. Þannig hafi hann varnað lögreglu því að meta hvort að dvöl hans hérlendis væri lögmæt eða ekki.
Ákæran var birt í Lögbirtingablaðinu í morgun en ekki hefur tekist að afhenda hinum ákærða stefnuna. Málið verður tekið fyrir þann 15. janúar í Héraðsdómi Reykjavíkur en mæti viðkomandi ekki fyrir dóm verður það metið sem svo að hann hafi viðurkennt sekt sína og verður þá dómur kveðinn upp að honum fjarstöddum.