Áhugafólk um íslenskar þjóðsögur hrökk við í morgun þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf út tilkynningu á Facebook-síðu sinni sem bar yfirskriftina „Búkollu stolið“.
Ekki var þó um baulandi spendýr að ræða heldur ógnarstórt svart og gult vinnutæki með skráninganúmerið JB-P52. Tækið var tekið ófrjálsri hendi af athafnasvæði verktaka við Álfabakka síðastliðinn sunnudagsmorgun. Síðast sást til Búkollu þar sem henni var ekið eftir Reykjanesbraut í átt að Hafnarfirði.
„Sjáist hún í umferð og eða hafi einhverjir vitneskju um hvar hún er niðurkomin vinsamlegast hringið tafarlaust í lögreglu í síma 112,“ segir í tilkynningu lögreglu.