fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Segist ekki hafa verið við kosningaeftirlit á hernumdum svæðum Úkraínu – Upplifir fréttaflutning sem „hótanir“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. september 2023 19:00

Erna Ýr Öldudóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðakonan Erna Ýr Öldudóttir segir að hún upplifi fréttir um mögulegar refsiaðgerðir gegn sér vegna ferðar sinnar til hernumdra svæða í Úkraínu sem hótanir og ekki bara gegn sér heldur allri íslensku þjóðinni. Segist hún undrast fréttaflutning af ferðinni og að það sé liður í einhverskonar áróðri sem íslenskir fjölmiðlar séu að láta mata í sig af erlendum leyniþjónustum.

„Það er alveg magnað að íslenskir fjölmiðlar og hugsanlega utanríkisráðuneytið skuli berja á íslenskum ríkisborgurum með einhverjum hótunum og gífuryrðum frá erlendum ríkjum,“ segir Erna Ýr en hún er gestur fjölmiðlamannsins Frosta Logasonar í nýjasta þætti Brotkasts á samnefndri hlaðvarpsveitu.

„Í rauninni það sem verið er að gera þarna er að það fer einhver maskína af stað, það er ekkert talað við okkur. Það er bara þyrlað upp einhverju drama og það er í rauninni verið að segja við borgara á Vesturlöndum: „Þið skulið ekki fara og kanna málin sjálf. Þið eigið bara að sitja heima og éta lygarnar og áróðurinn úr lófanum á okkur,“ segir Erna Ýr.  Segist hún undrast að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki farið á vettvang til þess að fylgjast með framkvæmd kosninganna. „Ég hefði ekkert verið að skafa utan af því ef ég hefði séð eitthvað að þessu,“ segir Erna Ýr.

Íslensk stjórnvöld fordæma kosningarnar

Eins og DV greindi frá ferðaðist Erna Ýr ásamt Konráði Magnússyni til Kherson að fylgjast með kosningum til ríkisstjóra, héraðsþings og Dúmunnar. Kosið var á fjórum hernumdum svæðum Rússa í Úkraínu en eins og önnur vestræn ríki þá fordæma íslensk stjórnvöld kosningarnar enda í trássi við alþjóðlög.

Aðrar vestrænar þjóðir fordæmdu kosningarnar, meðal annars Bandaríkjamenn. Anthony Blinken utanríkisráðherra sagði að allir kosningaeftirlitsmenn í þessum kosningum gætu átt yfir höfði sér þvinganir og takmarkanir á vegabréfsáritunum. „Rússar sýna meginreglu sáttmála Sameinuðu þjóðanna algera lítilsvirðingu með þessum aðgerðum. Svo sem virðingu fyrir fullveldi ríkja og landhelgi sem er undirstaða öryggis og stöðugleika á alþjóðavettvangi,“ sagði Blinken.

Erna Ýr heldur því hins vegar fram að hún og Konráð hafi ekki verið við kosningaeftirlit í Kherson. Hún hafi ferðast þangað sem blaðamaður í boði Borgaraskrifstofu Rússlands (e. Civic Chamber of The Russian Federation) að fylgjast með kosningum í landinu. Því hafi ekki verið  um boð eða formlegt kosningaeftirlit á vegum stjórnvalda í Rússlandi að ræða. Konráð, sem starfaði sem meindýraeyðir á árum áður og rekur nú fasteignafélag, kynntist rússneskri konu og bjó ytra 2003 til 2005. Síðan þá hafi hann verið viðloðandi Rússland og meðal annars flutt rússneskt timbur inn til Íslands.

Síðasta haust var greint frá því að Konráð hafi sent íslenskum fréttamönnum boð um að ferðast til hersetna héraðsins Lúhansk til að fylgjast með atkvæðagreiðslu um innlimun. Í bréfi til fréttamanna sagði Konráð að það væri sérstakur kosningasjóður á vegum rússneska ríkisins sem greiddi kostnað við flug og uppihald fyrir blaðamenn. Erna Ýr, hjá Frettin.is, þáði ein boðið í það skipti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt