Gísli Gíslason athafnamaður segist ekki geta hugsað sér annað en að búa til sín eigin verkefni og njóta þess að mæta í vinnuna. Gísli, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar segist hafa tileinkað sér jákvætt hugarfar. Það hafi skilað honum langt að sjá möguleika í stað þess að festast í áhyggjum af því að hlutirnir gangi ekki upp.
„Mottóið mitt hefur alltaf verið „anything is possible“, af því að það er allt hægt ef maður raunverulega trúir því. Ég ákvað fyrir löngu síðan að ég vildi stýra mér sjálfur og vinna við verkefni sem ég hef áhuga á. Oft er ég með fullt af verkefnum í höfðinu og í vinnslu, en svo þegar maður dettur ofan á eitthvað sérstakt, þá verður maður að fara ,,all in”. Ég hef ekki tölu á því hvað fólk hefur oft sagt við mig að eitthvað muni ekki ganga upp, en þá verður maður að kunna að halda áfram þrátt fyrir úrtöluraddirnar. Sumir fara í vinnuna á morgnana og vita að framundan er leiðinlegur dagur. Það gengur ekki upp fyrir mig. Ég vil hafa gaman að öllu sem ég geri. Ég hef ekki fengið laun frá neinum frá því að ég hætti á bílasölunni Braut 1980. Ég hef þurft að búa til mín eigin verkefni í gegnum tíðina og mínar eigin tekjur og vil hafa það þannig,“ segir Gísli, sem lýsir því í þættinum hvenær hann áttaði sig á því að hann vildi breyta lífi sínu.
„Ég man þegar ég var búinn að vera að reka stóra lögfræðistofu um skeið og sat einn á skrifstofunni og var að fara yfir dagbækurnar og sá að ég stýrði lífi mínu í raun ekki. Bókin var full af atriðum þar sem ég átti að vera hérna og þarna á ákveðnum tímum af því að aðrir vildu það. Þá áttaði ég mig á því að ég var ekki með neina stjórn og vildi ekki hafa það þannig. Þarna hugsaði ég með mér að þessum kafla yrði að ljúka af því að ég vildi ekki vera múlbundinn það sem eftir væri.“
Gísli var frumkvöðull í rafbílavæðingu Íslands og er maðurinn sem kom með Tesluna hingað til lands. Í gegnum það verkefni kynntist hann Elon Musk nokkuð vel.
„Ég man þegar ég til stóð að ég fengi fyrst fund með honum hitti ég samstarfsfólk hans daginn áður. Þegar sagði þeim að mig vantaði allavega þúsund Teslur fyrir Ísland var mér sagt að ég fengi ekki að tala við hann ef ég væri með svona vitleysu. Ef ég myndi segja að ég vildi 20 Teslur gæti ég fengið fund með honum. Svo mætti ég á fundinn með Elon daginn eftir og hann spyr mig hvað hann geti gert fyrir mig. Ég segi honum umsvifalaust að hann geti útvegað þúsund Teslur fyrir Ísland! Það fraus allt í smá stund, en svo segir hann: „Þetta er eini maðurinn sem ég hef talað við í dag sem er með viti“ og upp frá því urðum við fínir vinir. Við hittumst í þó nokkur skipti á næstu árunum. Ég man enn vel eftir því þegar ég fór með honum út á plan að sýna Arnold Schwarzenegger Model S bílinn þegar hann var kynntur. Ég á myndir af þessu, þegar við þrír vorum þarna saman að skoða Tesluna ég, Elon og Arnold,“ segir Gísli, sem segir að aðgengið að Elon Musk hafi breyst mikið á undanförnum árum.
„Það er nánast ekkert aðgengi að honum í dag, enda ríkasti maður heims og einn sá þekktasti á jörðinni. Ég þarf að fara í gegnum fólk sem þekkir hann mjög vel til að koma skilaboðum til hans, en það er ekkert hægt að senda honum e-mail lengur eða ná á hann í gegnum leiðir sem áður voru opnar. Eftir því sem umsvif hans urðu meiri varð aðgangurinn að honum minni og minni. Undir það síðasta þegar ég hitti hann hafði maður 6 mínútur með honum og þá þurfti að nýta tímann vel.“
Öll verkefnin sem Gísli hefur tekið að sér í gegnum tíðina valda því að hann hefur ferðast óhemju mikið um allan heim.
„Ég hef núna komið til 70 landa. Ghana var land númer 70 hjá mér og ég fer yfirleitt í 80-100 flugferðir á ári. Ég er búinn að gera það í mörg mörg ár, sem þýðir að ég á vini úti um allan heim. Fólk spyr mann oft hvort það sé ekki leiðinlegt að fljúga svona mikið, en ég sé það ekki þannig. Ef ég er í verkefnum eða þarf að ferðast, þá ákveð ég bara að hafa gaman og nýt mín í flugferðunum. Það snýst allt um viðhorf og maður getur ákveðið að hafa það viðhorf að nálgast það sem maður gerir með jákvæðum augum og hafa gaman að því,“ segir Gísli, sem segir Brasílíu vera það land þar sem hann var hræddastur, enda hafi verið ráðist á hann og konuna hans þar, en sem betur fer sluppu þau heil á húfi. En hann segir Norður-Kóreu vera skrýtnasta land sem hann hefur heimsótt.
„Öll ferðin þangað var eins og „Truman-Show“. Það var sett upp dagskrá fyrir ferðina og mikið af reglum um hvað mátti gera og hvað ekki. Það er massívur heilaþvottur í gangi í Norður-Kóreu. Ég reyndi að nálgast venjulegt fólk og tala við það, en það virtist upp til hópa trúa áróðri stjórnvalda. Kannski voru einhverjir bara of hræddir til að segja satt, en það er eins og áróðurinn hafi heppnast lygilega vel.“
Gísli er einn þeirra sem hafa keypt geimferð með Virgin Galactic. Gísli á miða númer 258 í röðinni og segist spenntur fyrir því þegar röðin kemur að honum.
„Ég hef hitt fjóra sem hafa gengið á tunglinu og hef alveg síðan ég var lítill strákur verið hugfanginn af geimnum. Ég man þegar ég sá að það væri verið að selja miða út í geim með Virgin Galctic að ég setti mig strax í samband við þau. Ég borgaði svo bara inn á þetta og eftir það var ekki aftur snúið. Þetta er eitt það magnaðasta sem hægt er að prófa. Að fara út í geim og sjá jörðina frá sjónarhorni sem bara nokkur hundruð manns hafa fengið að gera. Miðinn kostaði álíka mikið og Range Rover. Ég vil miklu frekar vera í hópi 500 manna sem hafa séð jörðina utan úr geimi heldur en að spóka mig um á Range Rover,“ segir Gísli, sem segist hafa kynnst mikið af fólki sem einnig hefur keypt sér miða út í geim á þeim tíu árum sem eru liðin frá miðakaupunum.
„Ég hefði átt að fara í loftið í kringum 2016, en það urðu miklar tafir á þessu. En nú eru þeir byrjaðir að fljúga og planið er að ferðirnar verði reglulega núna, þannig að þetta gæti gerst mjög fljótlega. Ég er búinn að fara í alls konar þjálfun í kringum þetta, þar sem maður er látinn upplifa jafn mikinn þrýsting og maður fengi í geimferðinni. Þú ert í raun og veru að fara fram og til baka til Keflavíkur á einni mínútu, þannig að þetta er alvöru hraði. Allt þetta ferli hefur verið mjög skemmtilegt og ég og konan mín höfum fengið endalaust af boðum þar sem við höfum kynnst öðrum sem hafa bókað miða upp í geim. Fólk sem pantar sér miða út í geim er mjög áhugavert og ekki hefðbundið og flest eru þau ótrúlega skemmtileg. Það eitt og sér að eignast nýja vini í gegnum þetta ferli gerir þetta þess virði.”
Hægt er að nálgast viðtalið við Gísla og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is