fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fréttir

Sagðist drepa ef hann sæi meira um „helvítis kynlífstæki“ og ræddu um morð á Herði Snapchatperra

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 4. september 2023 13:05

Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hryðjuverkamálið svokallaða er komið aftur á dagskrá en fyrirtaka verður í málinu í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Tveir menn á þrítugsaldri, þeir Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson, eru ákærðir fyrir vopnalagabrot og tilraun til hryðjuverka. Hryðjuverkahluta málsins var vísað frá dómi fyrr á árinu og var ný ákæra gefin út 7. júní síðastliðinn. Er Sindri þar að nýju ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og Ísidór ákærður fyrir hlutdeild í brotum Sindra.

DV hefur undir höndum greinargerð Sindra Snæs í málinu, sem lögmaður hans Sveinn Andri Sveinsson, ritar. Sindri játar að hluta vopnalagabrot en neitar sök varðandi tilraun til hryðjuverka.

Sindri er meðal annars talinn hafa sýnt ásetning sinn til hryðjuverka með því að hafa útbúið, framleitt og aflað sér skotvopna, skotfæra og íhluta í skotvopn. Einnig er hann sakaður um tilraun til hryðjuverka með sölu skotvopna. Í greinargerðinni er bent á að sum þessara vopna sem um ræðir séu í eigu föður Sindra og hann hafi ekki aðgang að þeim. „Augljóst er að sala vopna er giska fráleitur undirbúningur hryðjuverka. Ákærði Sindri hefur játað vopnalagabrot með framleiðslu skotvopna með þrívíddarprentun og sölu þeirra. Þessi framleiðsla átti sér stað löngu fyrir það tímamark sem nefnt er í þessum ákæruþætti,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Í annan stað er Sindri sakaður um tilraun til hryðjuverka með því að hafa viðað að sér efni um hryðjuverkamenn, fjöldamorð og hryðjuverkaaðferðir. Í greinargerðinni er því hafnað með öllu að netgrúsk af þessu tagi feli í sér tilraun til hryðjuverka.

Í greinargerðinni, sem er löng og ítarleg, er tekist á við lögfræðileg álitamál um hvenær brot telst fullframið og hvað ganga þurfi langt í athöfnum til að þær geti flokkast undir tilraun til brots. Er því með öllu hafnað að athafnir Sindra geti flokkast undir tilraun til hryðjuverka.

Afar skrautlegar samræður á Signal

Í ákæru héraðssaksóknara á hendur Sindra og Ísidóri fer mest fyrir textaspjalli þeirra á spjallforritinu Signal. Notkun á Signal er hægt að stilla þannig að ummæli hverfi eftir ákveðinn tíma en Sindri og Ísidór gerðu enga tilraun til slíks, auk þess sem Sindri lét síma sinn mótþróalaust af hendi til lögreglu við handtöku. Segir Sveinn Andri í greinargerð sinni að samskiptin hefðu alveg eins getað hafa átt sér stað á Facebook Messenger.

Sindri og Ísidór eru meðal annars sakaðir um áform um að keyra bíl inn í næstu Gay Pride göngu, fremja árás á árshátíð lögreglumanna, gera árás á Alþingishúsið og myrða ýmsa aðila í stjórnmálum og félagsmálum, t.d. Sólveigu Jónsdóttur formann Eflingar. Er þetta allt byggt á furðulegu spjalli þeirra félaga á Signal. Í greinargerðinni er staðhæft að spjall félaganna hafi verið ósmekklegt en ekki falið í sér nein áform. Er bent á að í ýmsum samræðuhlutum sem birt eru í ákærunni sé sleppt hluta af samskiptunum sem sýni að félögunum hafi ekki verið alvara. Með öðrum orðum sé spjallið slitið úr samhengi.

Ennfremur er bent á að félagarnir hafi viðrað hugaróra um ýmis afbrot sem ekki falli undir hryðjuverk en þeir séu ekki ákærðir fyrir tilraun til slíkra afbrota né hafi nokkuð komið fram sem bendi til að þeir hafi reynt að gera alvöru úr slíkum meintum áformum. Til dæmis ræði þeir um að keyra barnaníðinga norður í land, flytja þá í bát og sökkva þeim í sjóinn. Ræða þeir um að gera þetta við Hallbjörn Hjartarson kántrísöngvara og Hörð Sigurjónsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumann.

Einnig er rætt um að fremja morð til að borga upp skuld og Ísidór lætur þessi ummæli falla:

„Ég skýt einhvern ef ég sé aðra frétt um Gerði í Blush eða þessi helvitis kynlífstæki í búðinni hennar“

Einnig segir Sindri í svari til Ísidórs sem hafði sent honum tengil á umfjöllun um samkynhneigða barnaníðinga:

Ertu að reyna að fá mig til að drepa alla á gay pride? fólk er ógeð.“ – Er byggt á þessum ummælum í einum ákæruliðnum þar sem Sindri er sakaður um tilraun til hryðjuverka.

Félagarnir eru einnig sakaðir um að hafa haft áform um að eitra fyrir almenningi með rísin-eitri. Samkvæmt spjallinu ætlaði einhver Þorvaldur að sjá um að maka eitrinu á hurðarhúna. Í greinargerðinni er hins vegar bent á að Þorvaldur þessi er köttur.

Með öllu hafnað að Sindri hafi ætlað að fremja hryðjuverk

Í greinargerðinni segir:

„Til þess að unnt sé að sakfella ákærða Sindra fyrir tilraun til hryðjuverks þarf ákæruvaldið að sýna fram á að hann hafi ótvírætt sýnt hryðjuverkaásetning í verki, verki sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd hryðjuverks, og verður ásetningurinn ætíð að taka til allra efnisþátta í verknaðarlýsingu fullframins hryðjuverks, eins og því er lýst í ákæru.

Stóra spurningin sem dómari málsins þarf að svara er þessi: Var ákærði Sindri búinn að taka þá ákvörðun að fremja hryðjuverk og sýndi hann hryðjuverkásetning sinn í verki, þannig að um refsiverðan tilraunaverknað geti verið að ræða?“

Farið er í gegnum á hvaða forsendum ákæruvaldið telji Sindra hafa sýnt ásetning sinn til hryðjuverka í verki og þeim málflutningi hafnað. Orðrétt segir í lokahluta greinargerðarinnar:

„Ákværuvaldið byggir á því að ákærði Sindri hafi sýnt ótvíræðan ásetning sinn í verki, en því hafnar ákærði Sindri:

a)  Með því að útbúa og afla sér skotvopna, skotfæra og íhluta í skotvopn

Ekki er byggt á því að ákærði Sindri hafi aflað sér sprengiefnis. Fyrir liggur, þannig að ekki er yfir vafa hafið að framleiðsla ákærðu á vopnum eða vopnaíhlutum var gerð í auðgunarskyni, enda báðir ákærðu ákærðir fyrir það. Það er því ekki um hryðjuverkatilgang að ræða með þeirri framleiðslu. Enn fremur liggur fyrir að þau skotvopn sem vísað er til að ákærði hafi aflað sér voru í eigu föður hans; hann var með leyfi fyrir þeim og hafði einn aðgang að þeim.

b) Með orðfæri og yfirlýsingum á samskiptaforritinu Signal

Um var að ræða gáleysislegt og ósmekklegt tal ákærðu í tveggja manna samskiptum, sem síðan eru ýmist oftúlkuð eða slitin úr samhengi. Þegar samskipti ákærðu eru greind, bæði þau sem rata inn í ákæru og önnur, sézt að því fer fjarri að þau leggi grunn að ályktun um ásetning ákærða Sindra til að fremja hryðjuverk, hvað þá ótvíræðan. Í þessum samskiptum þeirra, sem rakin eru nokkuð ítarlega í greinargerð þessari, eru alls kyns heitstrengingar og plön sem aldrei urðu að veruleika, enda um óra ákærðu að ræða; þeir voru að fabúlera um menn og málefni, vissulega oft á hatursfullan og ósmekklegan hátt.

c) Með því að sækja, móttaka og tileinka sér efni um þekkta hryðjuverkamenn, aðferða- og hugmyndafræði þeirra

Það að móttaka og sækja sér efni um hryðjuverkamenn gefur almennt ekki til kynna, né veitir vísbendingu um og enn síður getur leitt til þeirrar ályktunar að ásetningur um að fremja hryðjuverk sé til staðar. Sá sem þetta gerir þarf að tileinka sér aðferðir og hugmyndafræði þess hryðjuverkamanns eða hryðjuverkasamtaka sem í hlut eiga; Eins og rakið er í kafla 9.4 í greinargerð þessari, fer því fjarri að um slíka tileinkun sé að ræða í tilviki ákærða Sindra.

d) Með því að verða sér úti um efni og upplýsingar um sprengju- og drónagerð

Þessir liðir sýna ekkert annað en fróðleiksfýsn ákærða Sindra á netinu. Leit upplýsinga, niðurhal og vistun á upplýsingum án nokkurra frekari athafna geta aldrei verið undirbúningsathöfn í skilningi tilraunarákvæðis 20. gr. hgl.

e) Með því að skoða og kynna sér efni á netinu sem tengist mögulegum árásarþolum

Þegar þessi ætlaða háttsemi er skoðuð nánar, sbr. umfjöllun í kafla 9.6, blasir við að hún verður aldrei talin til neinna undirbúningsathafna. Um er að ræða uppflettingar á netinu án nokkurs sýnilegs tilgangs og mælingar sem aldrei áttu sér stað. Engar eiginlegar undirbúningsathafnir áttu sér stað.

f) Með því að kynna sér, verða sér út um eða reyna að verða sér út um aðgerðabúnað, lögreglufatnað og lögreglubúnað

Eins og rakið er í kafla 9.7 er fráleitt að meta tilgreindar athafnir ákærða Sindra, sem að meginstefnu til felast í grúski á alnetinu sem undirbúningsathafnir fyrir hryðjuverk. Það eina sem hann „varð sér út um“ var „skothelt vesti“ sem hann keypti af XXXXXX löngu fyrir tímamark ákæru, sem aukinheldur liggur ekkert fyrir um að sé skothelt. Áréttað er einnig að ákærði Sindri hafði lögmæta ástæðu fyrir grúski um búnað tengdan skotmennsku, þar sem hann og faðir hans hugðu á viðskipti með slíkt.“

Segir síðan í lokaorðum greinargerðarinnar að ákæruvaldið sé víðsfjarri því að hafa sannað að Sindri Snær Birgisson hafi tekið ákvörðun um að fremja hryðjuverk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt