Það var baulað hressilega á Harry Maguire í æfingaleik Manchester United gegn Real Madrid í Bandaríkjunum í nótt.
Leiknum lauk með 2-0 sigri Real Madrid þar sem Jude Bellingham og Joselu skoruðu mörkin.
Framtíð Maguire hjá United er í óvissu en hann er ekki sá vinsælasti á meðal stuðningsmanna. Sem fyrr segir var baulað á hann í nótt en hann lenti einnig í þessu á undirbúningstímabilinu í fyrra.
Þá var fyrirliðabandið tekið af honum á dögunum og gerði Erik ten Hag Bruno Fernandes að fyrirliða.
Það er þó talið að Ten Hag liggi ekki á að losna við Maguire þó hann sé ekki í byrjunarliðsáætlunum hans.