fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Eygló var send fárveik heim af bráðamóttöku og lést í rúmi sínu – „Ég vil að þessi maður verði látinn horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 13. maí 2023 10:31

Skjáskot úr Kastljósi þar sem Kristján steig fyrst fram árið 2020

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Faðir 42 ára konu sem lét lífið þann 26. mars árið 2020, eftir að hafa reynt að leita sér læknisaðstoðar, telur að læknirinn sem tók á móti dóttur hans hafi orðið valdur að andláti hennar. Landlæknir hafi gert alvarlegar athugasemdir í málinu og talið að tilefni væri til að áminna lækninn eða svipta hann starfsleyfi. en engu að síður sé læknirinn enn starfandi og engin svör fást um mögulega ákæru í málinu. Þetta kemur fram í frétt Vísis þar sem faðirinn, Kristján Ingólfsson, stígur fram og gagnrýnir að enginn hafi þurft að sæta ábyrgð vegna máls dóttur hans. 

Eygló Svava Kristjánsdóttir hafði í tvígang verið lögð inn á spítala á árunum 2017 og 2018 með sýklasóttarlost. Um er að ræða alvarlegt ástand sem kemur í kjölfar blóðsýkingar og er dánartíðini vegna sóttarinnar mjög há, en þess vegna er mikilvægt að grípa inn eins hratt og auðið er.

Þessi sjúkrasaga Eyglóar virtist þó ekki hafa hringt neinum viðvörunarbjöllum hjá lækni bráðamóttöku þegar Eygló leitaði þangað þann 26. mars árið 2020, þá með einkenni sýklasóttarlosts. Þann 26. mars árið 2020 leitaði Eygló á bráðamóttöku og var þá með einkenni sýklasóttarlosts. Þar taldi læknir ekki tilefni til neinna rannsókna fyrir utan eina þvagprufu – sem hjúkrunarfræðingur gleymdi svo að framkvæma. Hringdi læknir í Kristján, sagði að dóttir hans væri hress og að það mætti sækja hana. Eygló fór því heim í óbreyttu ástandi um 90 mínútum eftir að hún kom á spítalann með sjúkrabíl. Kristján bjó um dóttur sína og treysti því að hún hefði verið rannsökuð. Daginn eftir kom hann að henni látinni.

Við krufningu kom í ljós að dánarorsök var eitrun af blöndu lyfja sem Eygló tók að staðaldri en hún hafði einnig verið með sýklasótt og nýrnabilun.

Alvarlegar athugasemdir landlæknis

Í nóvember 2020 gaf Landlæknir út skýrslu og kom þar fram að mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir andlát Eyglóar með fullnægjandi rannsóknum. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við störf læknisins og taldi Landlæknir tilefni til að beita viðurlögum á borð við áminningu eða sviptingu starfsleyfis.

„Ég vil að þessi maður verði látinn horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Ég vil að hann verði dæmdur og ég vil að hann sé látinn sæta ábyrgð. Þetta voru ekki mistök af hans hálfu. Þetta var einbeittur brotavilji. Þessi maður varð valdur að andláti dóttur minnar.“

Kristján segir að engu að síður hafi læknirinn ekki þurft að sæta neinni ábyrgð í málinu og sé enn starfandi í dag, þó sem heimilislæknir á heilsugæslu en ekki á Landspítala. Engnn hafi enn beðið fjölskylduna afsökunar vegna málsins sem hefur eins verið til rannsóknar hjá lögreglu. Kristján fær heldur engin svör um afdrif málsins í dag. Seinast fékk hann svör í október en þá var málið komið til ákærusviðs lögreglu og ætti að fara þaðan til héraðssaksóknara. Óttast Kristján að málið verði þaggað niður.

„Á meðan fær maðurinn sem olli dauða dóttur minnar að halda sínu leyfi, og er með sína stofu einhvers staðar úti í bæ. Ef ég fer á Læknavaktina einhvern tímann þá gæti ég alveg eins átt von á að sjá hann þar. Mér finnst það hrikaleg tilhugsun.“

Nánar má lesa um málið hjá Vísi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt