fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Einangrunarvist í gæsluvarðhald beitt óhóflega á Íslandi

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 31. janúar 2023 06:00

Myndir/Anna Kristín Shumeeva

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísland beitir einangrunarvist í gæsluvarðhaldi óhóflega og brýtur þannig gegn samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, með alvarlegum afleiðingum fyrir sakborninga og rétt þeirra til sanngjarnra réttarhalda. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu Amnesty International sem ber nafnið „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use og pre-trial solitary confinement in Iceland.“

Amnesty skorar á íslensk stjórnvöld, sem nú gegna formennsku í Evrópuráðinu, að skuldbinda sig til að koma á mikilvægum og tafarlausum umbótum.

Sex af hverjum tíu gæsluvarðhaldsföngum sættu einangrunarvist

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Amnesty sættu árið 2021 sex af hverjum tíu gæsluvarðhaldsföngum einangrunarvist hér á landi.

Simon Growther lögfræðingur hjá alþjóðaskrifstofu Amnesty International segir:

„Íslensk stjórnvöld hafa um árabil verið meðvituð um óhóflega beitingu einangrunarvistar hér á landi og skaðsemi hennar. Engu að síður voru að meðaltali rúmlega 80 einstaklingar ár hvert, frá 2012 til 2021, þeirra á meðal börn og einstaklingar með þroskahömlun, læstir einir í klefum í rúmlega 22 klukkustundir á sólarhring. Stjórnvöld verða að horfast í augu við staðreyndir.

Íslensk stjórnvöld brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum sínum á sama tíma og Ísland gegnir formennsku stofnunar sem ber ábyrgð á að koma í veg fyrir og útrýma pyndingum í Evrópu. Ísland verður að gera marktækar breytingar til að sporna gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“

Þó svo einangrunarvist sé ekki með öllu bönnuð samkvæmt alþjóðlegum lögum þá kveða lög á um að beiting einangrunar skuli heyra til undantekninga, vara í sem skemmstan tíma og ávallt vera háð ströngum skilyrðum.

Samkvæmt Amnesty er ekkert þessara atriða virt hér á landi þar sem kröfur lögreglu um einangrunarvist í gæsluvarðhaldi séu nánast ávallt samþykktar af dómurum. Samkvæmt rannsókn Amnesty International samþykktu dómarar kröfu um einangrunarvist í gæsluvarðhaldi í 99 prósent tilvika á árunum 2016-2018. Rannsókn Amnesty bendir enn fremur til þess að lítið hafi breyst frá 2018 í þessum málum.

Ekki nægar úrbætur frá Guðmundar- og Geirfinnsmáli

I fréttatilkynningu segir:

„Í skýrslu Amnesty International kemur fram að enda þótt hið illræmda Guðmundar- og Geirfinnsmál hafi leitt til breyttrar stefnu um beitingu einangrunarvistunar til lengri tíma í gæsluvarðhaldi hér á landi, þá hafa ekki nægar úrbætur átt sér stað. Á tíu ára tímabili, frá 2012 til 2021, sættu 99 einstaklingar langvarandi einangrunarvist þ.e. lengur en í 15 daga. Það er skýrt brot á alþjóðlegu banni gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Megin réttlæting yfirvalda á beitingu einangrunarvistar í gæsluvarðhaldi er verndun rannsóknarhagsmuna. Amnesty International lítur svo á að aldrei skuli beita einangrunarvist til þess eins að vernda rannsóknarhagsmuni lögreglu enda stríðir það gegn alþjóðlegri mannréttindalöggjöf um nauðsyn og meðalhóf. Önnur og vægari úrræði eru tiltæk til að gæta rannsóknarhagsmuna, eins og að aðskilja gæsluvarðhaldsfanga frá tilteknum einstaklingum og takmarka símanotkun.“

Þeir lögfræðingar sem Amnestyræddi við sögðu að skaðleg áhrif einangrunarvistar á skjólstæðinga þeirra væru skýr og þó erfitt sé að ákvarða með fullri vissu hvort lögregla og saksóknarar beiti einangrunarvist vísvitandi  til að beita sakborninga þrýstingi þá sé ljóst að einangrun skapar slíkan þrýsting.

„Ef einangrunarvist er beitt í þeim eina tilgangi að ná fram upplýsingum eða játningu telst það til pyndinga og annarrar grimmilegrar meðferðar,“ segir í tilkynningu.

Einangrunarvist beitt þrátt fyrir hættu á skaða

Eins kemur fram í fréttatilkynningu að skortur sé á varnöglum til verndar börnum og einstaklingum í viðkvæmri stöðu sem séu í mikilli hættu á að bera skaða af einangrunarvist. Einstaklingar á borð við fólk með líkamlega fötlun, geðraskanir eða þroskahömlun. Þetta eigi eins við um einstaklinga með sumar taugaþroskaraskanir.

„Viðtöl rannsakenda Amnesty International við lögfræðinga og gæsluvarðhaldsfanga sýndu fram á fjölda tilfella þar sem einangrunarvist var beitt gegn einstaklingum þrátt fyrir mikla hættu á skaða. Það gengur í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Einn lögfræðingur upplýsti samtökin um að skjólstæðingur hans hafi verið svo þjáður að „honum voru gefin lyf til að róa hann“. Fyrrum gæsluvarðhaldsfangi sem sat í einangrun sagði eftirfarandi: „Ég er með áráttu- og þráhyggjuröskun og það er mjög erfitt fyrir mig að vera einn með hugsunum mínum… ég held að enginn [í geðheilsuteyminu] viti að ég sé með þetta.“

Í samræmi við alþjóðlegt bann gegn pyndingum og annarri illri meðferð ætti aldrei að hafa fólk í viðkvæmri stöðu í einangrunarvist, svo sem fólk með fötlun, geðraskanir eða taugaþroskaraskanir, þar sem einkenni gætu versnað við einangrun sem er því líkleg til að valda skaða.

Á árunum 2012 til 2021 hafa tíu börn sætt einangrun í gæsluvarðhaldi á Íslandi. Þegar einangrunarvist er beitt gegn börnum brjóta íslensk stjórnvöld gegn alþjóðlegu banni við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“

Alvarleg heilsufarsáhrif

Amnesty International greindir frá því að fjöldi rannsókna bendi til þess að einangrunarvist hafi alvarleg heilsufarsáhrif, bæði líkamleg og andleg. Einkenni felist m.a. í svefnleysi, rugling, ofsjónum og geðrofi. Neikvæð heilsufarsáhrif geti komið í ljós eftir aðeins örfáa daga í einangrun. Sjálfsvígshætta og sjálfsskaði eykst á fyrstu tveimur vikum einangrunarvistar og hætta á heilsutjóni eykst með degi hverjum í einangrun.

„Íslandsdeild Amnesty International er gríðarlega stolt af þeirri vinnu sem deildin hefur lagt í gerð þessarar skýrslu. Það er mikilvægt að horft sé gagnrýnum augum á stöðu mannréttindamála hér á landi. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki tilmælum Amnesty International alvarlega. Íslensk stjórnvöld eru ekki undanskilin skoðun og gagnrýni, sérstaklega ekki þegar kemur að því hvernig komið er fram við fólk í viðkvæmri stöðu“, segir Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

„Misbeiting einangrunarvistar er gríðarlega umfangsmikil á Íslandi, meðal annars á börnum og einstaklingum með fötlun. Íslensk stjórnvöld verða að tryggja viðeigandi úrbætur á hegningarlögum og að bæta menninguna í réttarkerfinu til að binda enda á mannréttindabrot. Til eru önnur úrræði sem ætti að beita frekar“, segir Simon Crowther.

Amnesty International fagnar þeirri vinnu sem hafin er hjá stjórnvöldum við endurskoðun á lögum um meðferð sakamála, sérstaklega er varðar beitingu einangrunarvistar barna. Um leið hvetja samtökin stjórnvöld að standa við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar og tryggja að hætt verði að beita einangrunarvist í gæsluvarðhaldi eingöngu á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Skýrslan í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar