fbpx
Sunnudagur 31.ágúst 2025
Eyjan

Treystir ekki Bandaríkjunum fyrir að vernda Ísland gegn innrás frá Rússlandi eða Kína

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 13. júlí 2022 19:00

Ole Anton Bieltvedt. Skjáskot/Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðvina, félagasamtaka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd, segir að stríð Rússlands í Úkraínu hafi vakið upp spurningar um varnir og öryggi fleiri landa í Evrópu, þar á meðal Íslands.

Þrátt fyrir að ýmsir séu á því að Bandaríkin tryggi íbúum hins vestræna heims og þar með Íslendingum öryggi og frelsi þá er Ole Anton ekki á því. „Fáfræði og skilningsleysi þessa fólks er fyrir mér á háu og hættulegu stigi,“ segir Ole Anton í pistli sem birtur var á Vísi í morgun um þá sem treysta á Bandaríkin.

„Fáfræði og skilningsleysi eru erfið viðureignar. Þar fer eins um staðreyndir og röksemdir, eins og vatnið, sem skvett er á gæs. Á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu, í háum og valdamiklum stöðum, situr fólk, sem er sannfært um, að BNA veiti okkur framtíðaröryggi á öllum sviðum. En það stenzt ekki.“

Ástæðan fyrir því að Ole Anton treystir ekki Bandaríkjunum fyrir að vernda Ísland er þróunin sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. „Þar takast á tvær andstæðar fylkingar, annars vegar mikillar íhaldssemi og heimóttarskapar, þar sem þröngsýni, þekkingarleysi og sjálfsdýrkun ráða för, og, hins vegar, frjálslyndrar, mannúðlegrar og ábyrgrar alþjóðahyggju, þar sem þekking, víðsýni og tillitssemi við aðra sitja í fyrirrúmi,“ segir hann.

„Þessi klofningur kemur til að mynda fram í afstöðu til réttar einstaklinga, frá 18 ára aldri, til vopnaburðar, til réttar kvenna til fóstureyðingar, til afstöðu þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og réttar þeirra til réttlætis og velferðar svo og til afstöðunnar til alþjóðasamvinnu.“

Þá bendir Ole Anton á að Donald Trump var forseti Bandaríkjanna og að þrátt fyrir að hann og hans flokkur fari ekki með völdin núna þá geti það komið fyrir á ný. „Sem stendur ræður fylkingin, sem við getum treyst, í BNA. En hversu lengi verður það? Aftur verður kosið 2024. Hverjum veita Bandaríkamenn þá völdin? Donald Trump, eða einhverjum hans líka?“ segir hann.

„Við getum ekki treyst á BNA“

Ole Anton segir þá í pistlinum að ef Rússar eða Kínverjar myndu vilja hertaka Ísland til að tryggja tökin á norðurslóðum þá sé ekki víst hvað Trump eða annar slíkur maður myndi gera. „Við getum ekki treyst á BNA með varnir, frelsi og öryggi Evrópu. Heldur ekki á Tyrki, sem búa yfir öðrum fjölmennasta her NATO-ríkjanna,“ segir hann.

Undir lok pistilsins kemur Ole Anton sér að kjarnanum, það er að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. „ESB býr yfir gífurlegum efnahagsstyrk, sem nú verður að færa yfir í varnar- og hernaðarstyrk, í framtíðinni verður hvorttveggja að koma til, og verður Ísland að gerast fullur þátttakandi í þessu samstarfi evrópskra systra- og bræðraþjóða okkar,“ segir hann.

„Við fengjum þá líka loks setu við borðið, fengjum okkar eiginn kommissar, gætum látið til okkar taka og rödd okkar heyrast í samfélagi evrópskra þjóða, þar sem litlu þjóðirnar hafa líka sterka rödd og afgerandi völd; neitunarvald í öllum stærri málum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?

Thomas Möller skrifar: Er Ísland fimm stjörnu land?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni?

Hótel Saga: Hver ber ábyrgð á óráðsíunni?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum

Björn Jón skrifar: Sukkið vestur á Melum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir