Snör og snögg viðbrögð þjónustustúlku á veitingastaðnum Mrs Potato Restaurant í Orlando, Flórída, urðu til þess að ungum dreng var bjargað frá stjúpföður sínum síðastliðinn nýársdag. New York Post fjallaði um málið.
Þann 1. janúar síðastliðinn mætti Timothy Lee Wilson, sem er 36 ára gamall, ásamt fjölskyldu sinni á veitingastaðinn sem um ræðir. Flaviane Carvalho þjónaði þeim til borðs en á meðan hún gerði það tók hún eftir því að enginn matur var pantaður fyrir 11 ára drenginn sem sat við borðið ásamt fjölskyldu sinni. Þá tók Carvalho eftir því að drengurinn var marinn og með skrámur á handleggjum sínum og andliti.
Carvalho tók það á sitt ráð að skrifa skilaboð til drengsins á miða. „Þarftu hjálp?“ skrifaði hún á miðann og sýndi dregnum án þess að foreldrar hans sæju það. Drengurinn kinkaði kolli og Carvalho hringdi þá um leið í neyðarlínuna.
„Ég hef gríðarlega miklar áhyggjur og ég veit ekki hvað ég á að gera, geturðu gefið mér einhver ráð?“ sagði Carvalho í samtali sínu við neyðarlínuna samkvæmt WFLA. „Drengurinn er marinn og hann er ekki að borða.“
Lögreglan fór í málið og komst að því að drengurinn hafði orðið fyrir hryllilegu ofbeldi af hendi Wilson en hann er stjúpfaðir drengsins. Til að mynda hafði Wilson hengt drenginn á hvolfi á jóladag og handjárnað hann við flutningsvagn. Lögreglan fékk leitarheimild og komst að því að drengurinn hafði verið látinn dúsa í geymslurými og búið var að líma fyrir gatið á hurðinni svo hann gæti ekki séð út um hana.
Yfirvöld segja að viðbrögð þjónustustúlkunnar hafi bjargað lífi drengsins. Wilson var dæmdur sekur um að misnota og vanrækja drenginn en í ágúst mun verða ákveðið hversu langan dóm hann fær fyrir brotin. Þá viðurkenndi Kristin Swann, móðir drengins, fyrir dómi að hún vissi af brotunum og fékk hún einnig dóm fyrir vanrækslu. Búið er að taka drenginn og fjögurra ára systur hans frá móðurinni en hvorki hún né Wilson eru nú með forræði yfir þeim.