Lögreglan í Oklahoma handtók í síðustu viku hina 61 árs gömlu Rayna Elizabeth Hoffman-Ramos fyrir ósvífið morð á taívönskum verslunarmanni fyrir 29 árum síðan, eða árið 1993. Í tilkynningu frá lögreglu vestanhafs segir að nýjar rannsóknaraðferðir hefðu leikið stórt hlutverk í rannsókninni og orðið til þess að rannsókn var hafin á ný á málinu.
Samkvæmt lögreglu er hún nú grunuð um að hafa skotið Shu Ming Tang er hann stóð vaktina í fjölskylduverslun í San Carlos nálægt San Francisco. Mun Ramos hafa skotið Tang í bringuna er hún gerði tilraun til þess að ræna verslunina.
San Carlos er öllu jafna heldur friðsælt svæði og var morðið á Tang rætt manna á milli í mörg ár. Í yfirlýsingu frá bæjarstjóra San Carlos, Sara McDowell, segir hún að Tang hafi verið eiginmaður, faðir og vinur sem kom til Bandaríkjanna í leit að betra lífi.
Saksóknarar í Kaliforníu vinna nú að því að fá Ramos framselda frá Oklahoma svo hægt sé að sækja hana til saka. Á hún yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.