fbpx
Föstudagur 02.janúar 2026
Eyjan

Rússland, Tyrkland og hræsnin í alþjóðapólitíkinni

Egill Helgason
Þriðjudaginn 27. mars 2018 11:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþjóðapólitík hefur alltaf verið hræsnisfull og einkennst af tvískinnungi. Það hafa komið fram stjórnmálamenn sem hafa reynt að reka siðlega utanríkisstefnu, en yfirleitt hefur þeim mistekist hrapallega. Frægastur var Jimmy Carter sem boðaði bætt siðferði eftir Nixontímann, þar sem hinn útsmogni Henry Kissinger hafði stjórnað utanríkisstefnunni. Kissinger skrifaði bækur um að utanríkisstefna þyrfti að byggjast á „raunsæi“, Carter vildi setja há siðferðisviðmið – á endanum féll hann í kosningum fyrir Ronald Reagan.

Nú er mikið rætt um tvískinnunginn sem felst í því að rússneskir diplómatar séu reknir unnvörpum heim frá vestrænum ríkjum og skorið sé á samskipti við Rússa á ýmsum sviðum á sama tíma og Tyrkir standa í stórfelldum hernaði gegn Kúrdum á yfirráðasvæðum þeirra í Sýrlandi.

Hví að refsa Pútín en ekki Erdogan?

Stjórn Rússlands, sem má lýsa sem vanheilögu bandalagi gamalla KGB-manna og ólígarka sem hafa orðið ofurríkir á tengslunum við Pútín, hefur staðið í margvíslegum ögrunum síðustu ár. Morðtilræðið við Skripal-feðginin er bara enn eitt atriði í syndaregistrinu. En Erdogan hefur á sama tíma barið niður frjálsa fjölmiðla í Tyrklandi og staðið fyrir stórfelldum fangelsunum á stjórnarandstæðingum. Árásirnar á Kúrda eru bara enn eitt dæmið um vaxandi árásarhneigð hans.

Tyrkir eru með okkur í Nató. Vestrænir ráðamenn mega ekki hugsa sér að Tyrkland fari úr Nató og hverfi lengra inn í hinn íslamska heim. Veraldarhyggjan sem hefur einkennt tyrknesk stjórnmál frá tíma Ataturks er á undanhaldi. Árásargjarnt Tyrkland ógnar Grikklandi. Það gæti snúist öndvert gegn Ísrael – en þar er annar staður í heiminum þar sem geópólitískur tvískinnungur ræður ríkjum.

En það sem er erfiðast viðfangs eru næstum fjórar milljónir sýrlenskra flóttamanna sem eru í Tyrklandi. Erdogan undirgekkst samkomulag um að stemma stigu við flóttamannastraumnum til Evrópu. Það var ekkert sérlega siðlegur gjörningur, á móti horfa vestræn ríki í hina áttina þegar Erdogan fremur óhæfuverk.

En honum er í lófa lagið að opna aftur fyrir straum flóttamanna norður og vestur til Evrópu. 2015 ollu flóttamenn frá Sýrlandi straumhvörfum í stjórnmálum á Vesturlöndum. Afleiðingarnar voru meðal annars kjör Donalds Trump, Brexit og uppgangur öfgahægrimanna út um alla Evrópu. Önnur bylgja flóttamanna getur sett allt á annan endann í álfunni.

Um leið er spurt hvort það hafi einhver áhrif á Rússa að vestrænt fyrirfólk mæti ekki á heimsmeistaramótið í fótbolta? Hvort Pútín sé ekki alveg sama? Nei, það er honum ekki. Það verður þunnskipaður bekkurinn í heiðursstúkunum. Pótintátum af hans tagi finnst gott að geta baðað sig í frægðarljósi; það sást greinilega á Vetrarólympíuleikunum í Sotsji.

Samskipti Rússlands og Tyrklands hafa eiga sér langa og flókna sögu. Rússa dreymdi eitt sinn um að leggja undir sig siglingaleiðina út úr Svartahafi og ríkin háðu margar styrjaldir. Bosporussund er afar miklvægt fyrir Rússa.  Tyrkir og Rússar hafa verið hvorir sínu megin í Sýrlandsstríðinu, upp úr sauð þegar Tyrkir skutu niður rússneska herþotu 2015.

En Pútín og Erdogan eiga margt sameiginlegt, stjórnunarstíll þeirra er svipaður (sagt er að litli bróðir þeirra sé svo Orbán í Ungverjalandi). Þeir hittast nú æ oftar, einum fimm sinnum á síðasta ári og næst í apríl, og það vekur athygli að Natóríkið Tyrkland ákvað í fyrra að kaupa eldflaugavarnakerfi af Rússum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðrún Karls Helgudóttir: Ótrúlegt hvað stórfelldar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 hafa farið lágt

Guðrún Karls Helgudóttir: Ótrúlegt hvað stórfelldar breytingar á Þjóðkirkjunni frá 2019 hafa farið lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Er ekki allt í jólalagi?

Nína Richter skrifar: Er ekki allt í jólalagi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verkstjórnin ber nafn með rentu

Orðið á götunni: Verkstjórnin ber nafn með rentu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gylfi Magnússon: Ekki hægt að tala um skattahækkanir

Gylfi Magnússon: Ekki hægt að tala um skattahækkanir
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Gylfi Magnússon: Bandaríkjamenn eru sjálfir að borga tolla Trumps

Gylfi Magnússon: Bandaríkjamenn eru sjálfir að borga tolla Trumps
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala

Orðið á götunni: Til hamingju – Eins árs afmæli og verkin tala
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar: Planið virkar – Lækkandi vextir og minnsta verðbólga frá 2020

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar: Planið virkar – Lækkandi vextir og minnsta verðbólga frá 2020
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Stjórnmálamaður ársins á Íslandi og atvinnurekandi ársins 2025

Orðið á götunni: Stjórnmálamaður ársins á Íslandi og atvinnurekandi ársins 2025