Kona sem býr í Laugardalnum í Reykjavík hefur orðið fyrir því í tvígang að matvælum er kastað í tvíbýlishús sem hún býr í. Hún greindi frá þessu í hverfishóp sínum á Facebook og óskaði eftir vitnum. DV ræddi við konuna um málið.
„Við komum út um morgun og það lágu tvær baunadósir hérna fyrir utan, það var búið að skvetta innihaldi þeirra á framhlið hússins. Við héldum náttúrulega að þetta væri bara eitthvað einstakt tilfelli þannig við þrifum þetta af. Síðan tveim eða þremur kvöldum seinna er kastað eggjum á sama svæði á húsinu þannig við fórum að upplifa að þetta væri kannski ekki einstakt tilfelli,“ segir hún í samtali við DV.
Hún segist vilja trúa því að þetta sé ekki gert af einhverjum ásetningi. „Við viljum trúa því að þetta séu bara pörupiltar en ekki eitthvað stærra,“ segir hún en einn aðili sem þau ræddu við taldi að þarna væri um að ræða einhvers konar merkingu frá glæpagengi.
„Okkur var sagt að þjófagengi merktu hús með þessum hætti og ef ekki er hreinsað telst það vísbending um að fólk sé ekki heima,“ sagði konan í athugasemd við færsluna sína í hópnum en í samtali við blaðamann segir hún að lögreglan hafi ekki kannast við neitt slíkt. „Ég spurði þá hvort þeir könnuðust eitthvað við þetta en þeir sögðu nei, þeir höfðu aldrei heyrt um það.“
Konan furðar sig á því að sitt hús hafi orðið fyrir barðinu á matarsóuninni enda býr ósköp venjulegt fólk í húsinu. „Okkur brá við þetta. Þetta var sérstök upplifun. Við erum ekki fólk í neinni ábyrgðarstörfum eða neinum áberandi störfum. Enginn hér í húsinu er í pólitík eða að taka þátt í þessari vafasömu umræðu í þjóðfélaginu, við erum ekkert tengd þessu. Kannski var þetta bara vitlaust hús og þau ætluðu bara að henda í eitthvað annað fólk.“
Að lokum segist hún vorkenna fólkinu sem gerir svona lagað. „Mér finnst þetta bara svo glatað, eitthvað svo glötuð uppákoma. Að henda Heinz-baunum, þetta er hálf fyndið, bara svona „lame“, skilurðu? Ég veit ekki, ég vorkenni bara svona fólki. Fólki er vorkunn sem er að standa í því að opna dós, skutla henni á hús, opna aðra dós, skutla henni á hús… þetta er bara svolítið sérstakt.