Knattspyrnuspekingurinn Jamie Carragher segir að Manchester City hafi forgangsraðað vitlaust í sumar með því að kaupa Jack Grealish í stað Harry Kane. Hann segir jafnframt að Grealish hafi verið góð kaup, en bætir við að Englandsmeistararnir hafi frekar þurft á framherja að halda en miðjumanni.
Carragher trúir því að þessi mistök gætu kostað City titilinn á nýju tímabili. „Grealish mun ekki tryggja Man City Englands- eða Meistaradeildartitilinn, en kaup á Kane eða öðrum framherja í heimsklassa gæti fært þeim þessa titla.“
Hann sagði í grein í The Telegraph að tap City fyrir Tottenham um síðustu helgi bæri vitni um þörf City á framherja. „Það var augljóst í tapinu gegn Tottenham. Þrátt fyrir það keypti City Grealish og beið með kaupin á Kane.“
Carragher er líka ringlaður yfir því hvers vegna City keypti ekki Kane í byrjun sumars þegar þeir bjuggu augljóslega yfir fjármagni til þess.
„City áttu augljóslega fyrir Kane í byrjun sumar en ákváðu að virkja 100 milljóna punda klásúluna í samningi Jack Grealish. Eins og stendur virkar eins og þeir hafi forgangsraðað vitlaust. Grealish er góður leikmaður. Hann á eftir að standa sig vel hjá City. Ég skil hvers vegna hann flutti sig yfir,“ sagði Carragher.
„Það sem ég skil ekki er hvers vegna City sinntu ekki brýnni þörfum sínum fyrst.“
Guardiola er rólegur yfir gangi mála hjá City þrátt fyrir áhyggjur Carragher. Þegar hann var spurður hvort hann væri sáttur með leikmannahópinn sagði hann: „Já, algjörlega, meira en ánægður. Þetta er sama liðið og í fyrra, fyrir utan að Sergio (Aguero) er farinn og Jack Grealish er kominn í staðinn.“