Þó svo að Reykjavíkurmaraþoninu hafi verið aflýst þá munu AHC samtökin halda svokallað Sunnuþon. Það er 4.2km leið sem fólk getur gengið, hlaupið eða hjólað frá Laugarneskirkju inn í Laugardalinn og til baka. Viðburðurinn fer fram á morgun, laugardag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.
AHC samtökin eru að safna fyrir grunnrannsóknum á AHC sjúkdómnum.
Ástæðan fyrir því að viðburðurinn mun bera nafnið Sunnuþon er sá að eini einstaklingurinn á Íslandi með AHC heitir Sunna Valdís Sigurðardóttir og verður hún fremst í flokki í Sunnuþoninu en maraþonið er skemmtilegasti dagur ársins í hennar augum.
Sunna Valdís er 15 ára gömul og þjáist á hverjum degi með krampaköstum og lömunarköstum auk þess að vera þroskaskert og með öll einkenni allra annarra taugasjúkdóma. Í fréttatilkynningunni segir að það stöðvi hana ekki, en hún sé gríðarlega jákvæð manneskja.