Emil Pálsson hefur verið lánaður til Sogndal frá Sarpsborg 08 í Noregi. Frá þessu segja norskir miðlar í dag.
Sarpsborg 08 leikur í efstu deild en Emil hefur ekki fengið eins stórt hlutverk eins og vonir stóðu til um.
Sogndal leikur í næst efstu deild og situr þar í fimmta sæti með 24 stig en liðið er bara tveimur stigum frá öðru sætinu.
Emil hafði byrjað sjö leiki með Sarpsborg 08 í deildinni á þessu tímabili en öflugi miðjumaðurinn frá Vestfjörðum fer í stórt hlutverk hjá Sogndal.
Emil lék með FH áður en hann hélt í atvinnumennsku árið 2017 en þá samdi hann við Sandefjord en Emil gekk í raðir Sarpsborg fyrr á þessu ári.