Hörður Ægisson ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins, og Þorsteinn Friðrik Halldórsson blaðamaður á sama miðli hafa sagt upp störfum. Þetta staðfestir Hörður í samtali við DV.
Þeir fóstbræður eru þó ekki hættir enn, og munu áfram heiðra kollega sína með nærveru sinni eitthvað fram í september, samkvæmt heimildum DV. Hörður segist hafa sagt upp störfum í lok síðasta mánaðar.
„Ég á nokkra leiðara eftir,“ segir Hörður inntur eftir því hvenær hann kveðji Markaðinn fyrir fullt og allt. Leiðarar Harðar undanfarin misseri hafa vakið mikla athygli og Hörður orðinn þekktur fyrir að vera ómyrkur í máli í sínum skrifum.
Aðspurður hvað taki við segist Hörður ekki geta greint frá því að svo stöddu, en það komi allt í ljós á næstu vikum. Þó getur hann staðfest að böndin milli hans og Þorsteins muni fylgja þeim yfir í næsta verkefni, óslitin.