fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Reykjavík vantar samgöngumiðstöð

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. júlí 2021 15:04

Um langt árabil hefur verið lofað nýrri samgöngumiðstöð þar sem BSÍ stendur nú en lítið orðið um efndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir farsóttarhöftin eru ferðalög að aukast á nýjan leik en á þvælingi milli borga á meginlandinu hef ég líkt og margir heillast mjög af fjölbreyttum samgönguháttum. Þar er brautarstöðin oftast nær miðpunktur eða nærri miðpunkti borganna. Þessar stöðvar eru gjarnan alhliða samgöngumiðstöðvar; þaðan er hægt að fá sér far með áætlunarbíl, sporvagni, strætisvagni og leigubifreið og bílaleigur eru jafnan með afgreiðslur á brautarstöðvum eða í næsta nágrenni þeirra. Síðan eru brautarstöðvarnar jafnan vel tengdar við flugvelli. Allt er þetta kunnara en frá þurfi að segja en mér var hugsað til þess á ferðalagi um norðanverða Evrópu í sumar hversu mjög skortir samgöngumiðstöð í höfuðborg Íslands.

Reykjavík var í ýmsum skilningi meiri „borg“ fyrir 60 eða 70 árum. Þá var aðalskiptistöð strætisvagna á Lækjartorgi og rétt við torgið — á Kalkofnsvegi — var Bifreiðastöð Íslands staðsett sem og hópferðabílaafgreiðsla. Leigubílastöðvarnar voru síðan flestar staðsettar þar allt umhverfis og þetta var miðpunktur borgarinnar. Síðan þá hefur byggðin vitaskuld þanist út, verslun og þjónusta dreifst vítt og breitt og engin er samgöngumiðstöðin lengur.

Samgöngumiðstöðin sem aldrei varð

Lengi hefur verið rætt um uppbyggingu nýrrar alhliða samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri og um skeið var gert ráð fyrir henni norðan Loftleiðahótelsins og hún myndi þá jafnframt þjóna því hlutverki að vera flugstöð — sem væri óneitanlega kostur á meðan flugvöllur er í Vatnsmýrinni. Nú er gert ráð fyrir samgöngumiðstöð þar sem BSÍ stendur sem verði þá umferðarmiðstöð fyrir áætlunarferðir milli landshluta, miðstöð strætisvagna og nýs hraðvagnakerfis sem kallað hefur verið borgarlína. Ekkert bólar þó á framkvæmdum þar þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Ég velti því upp hér hvort ekki væri ástæða til að ganga lengra og dusta rykið af fyrri hugmyndum um allsherjarsamgöngumiðstöð norðan Hótel Loftleiða sem yrði allt í senn: flugstöð, miðstöð áætlunarferða út um land, hópferðabílaafgreiðsla, afgreiðsla leigubifreiða, þjónusta bílaleiga og þannig mætti áfram telja. Miðstöð af þessu tagi yrði þá nýr miðpunktur borgar — og verðugt verkefni arkitekta og skipulagsfræðinga að tengja hana saman við miðbæinn og stóra vinnustaði allt í kring. Þar mætti þá jafnframt gera ráð fyrir stóru bílastæðahúsi.

Þetta leiðir aftur hugann að einu stærsta fyrirtæki landsins — Icelandair — sem er með höfuðstöðvar sínar staðsettar rétt sunnan við þar sem gert var ráð fyrir samgöngumiðstöð. Stjórnendur félagsins kynntu fyrir skömmu að þeir hyggist færa skrifstofurnar til Hafnarfjarðar. Á dögunum var greint frá því að einn stærsti framhaldsskóli landsins — Tækniskólinn — væri líka á förum þangað suður eftir og nýlega yfirgaf Íslandsbanki borgina. Nefna mætti ótal fleiri dæmi um flótta stórra vinnustaða úr höfuðborginni. Þá hafa stórar ríkisstofnanir sem almenningur sækir þjónustu til, líkt og Tryggingastofnun og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu verið fluttar langt frá miðbæ Reykjavíkur og eru staðsettar þannig að fólki er illmögulegt að sækja þangað með almenningssamgöngum. Þetta gerist allt á sama tíma og borgaryfirvöld ræða um mikilvægi þess að „þétta byggð“ og stytta þann tíma sem fólk tekur að komast til og frá vinnu.

Orð og efndir

En svo ég vendi kvæði mínu í kross: Sumir samborga okkar leggja meira á sig en aðrir við að byggja upp atvinnurekstur og efla fagurt mannlíf. Vinir mínir, hjónin Ófeigur Björnsson gullsmíðameistari og Hildur Bolladóttir kjólameistari, eru sannarlega þar á meðal. Þau keyptu gamalt 19. aldar timburhús við neðanverðan Skólavörðustíg fyrir rúmum aldarfjórðungi og gerðu upp með myndarlegum hætti. Þar hafa þau búið síðan og stundað sína iðnir og verslað með eigin varning. Til að styðja við listir stofnuðu þau galleríi í húsi sínu og að auki hafa þau komið á laggirnar fjölsóttum götuhátíðum í samstarfi við kaupmenn á svæðinu. Allt er þetta til mikillar fyrirmyndar og öðrum til eftirbreytni.

Ég nefni þetta sómafólk hér í þessu sambandi vegna þess að þegar þau fluttu á Skólavörðustíginn þurftu þau ekki að eiga bíl — öll þjónusta var í göngufæri. Síðan þá hefur sífellt sigið á ógæfuhliðina og nú er meira að segja pósthúsið farið úr miðbænum. Vinstriflokkarnir hafa verið við völd í Reykjavíkurborg meira og minna frá árinu 1994 og allt frá þeim tíma talað mjög fyrir því að sporna við notkun einkabílsins og gera fólki kleift að sækja þjónustu í sínu nærumhverfi fótgangandi. Ég hygg að flestir séu sammála um að þetta séu göfug markmið. Framkvæmdin hefur samt verið allt önnur og þannig var allt þar til nýlega nálega allri meiriháttar uppbygging verslunarhúsnæðis nærri miðbænum beint út á Granda — þar sem búinn var til nýr bílamiðbær. Og eins og áður sagði er stöðugur viðskiptaflótti frá „þéttingarsvæðum“ Reykjavíkur — þvert á það sem borgaryfirvöld boða.

Sífelld meiri dreifing byggðinnar og atvinnusvæða hefur í för með sér að reisa þarf mun umfangsmeiri umferðarmannvirki en ella. Nærri miðbænum og Vatnsmýrinni eru nokkrir af stærstu vinnustöðum landsins, háskólarnir, Landspítalinn og Stjórnarráðið og nær væri að stefna að uppbyggingu á þessu svæði frekar en dreifa stórum vinnustöðum vítt og breytt um höfuðborgarsvæðið. Í þéttu borgarumhverfi verður til eftirsóknarvert mannlíf og „dýnamík“ sem Reykjavík skortir á ýmsan hátt. Alhliða samgöngumiðstöð alls landsins yrði veigamikill þáttur í uppbyggingu miðbæjarins.

Um leið væri ástæða til að taka lög um fólksflutninga á landi til gagngerrar endurskoðunar. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa nú haft einokun á rekstri áætlunarbíla í um áratug og því hefur fylgt gríðarleg sóun og taprekstur, samhliða sífelldri fækkun farþega. Með því að gera rekstur áætlunarbifreiða frjálsari mætti stórauka almenningssamgöngur um landið. Út frá umhverfissjónarmiðum færi líka mun betur á að beina erlendum ferðamönnum í áætlunarferðir í stað þess að þeir leigi sér bílaleigubíl. Ein allsherjar samgöngumiðstöð — þar sem allir rekstraraðilar sætu við sama borð — er lykilþáttur í að vel takist til í þessu efni og Reykjavík geti orðið borg meðal borga með öflugum miðpunkti almenningssamgangna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið