Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að annar faraldur muni koma upp seinna og að það sé einungis tímaspursmál hvenær. Hann segir ómögulegt að segja hvort það verði kórónuveirufaraldur en ljóst sé að annar heimsfaraldur inflúensu muni koma enda koma þeir reglulega.
Þórólfur var í viðtali við Fréttablaðið á dögunum og ræddi um margt og mikið, þar á meðal hvernig stjórnvöld tókust á við faraldurinn hér á landi. Hann þakkar stjórnmálamönnum fyrir gott starf.
„Það er mikið lán fyrir okkur á Íslandi að hafa þessa stjórnmálamenn sem stýra þessum málum, þau gerðu sér fljótt grein fyrir því út á hvað þetta gekk og hvaða aðgerðum best væri að beita. Það var þeirra meðvitaða ákvörðun að hafa þetta svona og ég held að það hafi gengið ágætlega,“ segir Þórólfur og vill meina að samstarf stjórnvalda og þríeykisins hafi gengið vel.
Fyrir faraldurinn var Þórólfur ekki frægasti maðurinn á Íslandi en það gæti hafa breyst á þessu eina og hálfa ári. Hann vill þó meina að hann sé ekki upptekinn af frægðinni.
„Þetta plagar mig ekki mikið. Ég hef bara komið fram með það sem ég veit og get og þekki og finnst. Ég hef reynt að vera heill og sannur í því. Ég hef ekki verið að setja mig í sérstakar stellingar hvað það varðar enda er það bara mjög erfitt í þessu að gera það,“ segir hann.
Það gengur vel að bólusetja íslensku þjóðina og komum við ansi vel út úr faraldrinum ef við erum borin saman við aðrar þjóðir. Það má virkilega þakka Þórólfi fyrir gott starf og hver veit hvar við værum án hans.